Innlent

Nítján banaslys á árinu

Nítján einstaklingar létust af slysförum árið 2011. Það er fækkun um sex frá árinu 2010. Flestir létust í umferðarslysum eða alls 12 en athygli vekur að banaslys í flokknum heima og frítímaslys eru tvö sem er töluvert færra en árið 2010 þegar þau voru átta. Sjómenn fóru líka vel út úr árinu, en ekkert banaslys varð á sjó árið 2011. Það er merkur áfangi og hefur aðeins gert einu sinni áður í sögunni.

Í heild sinni má segja að einstaklingum sem látist hafa af slysförum hafi fækkað jafnt og þétt síðasta áratuginn en árið 2002 létust 42 einstaklingar og árið 2007 voru þeir 29 svo dæmi séu tekin.

Eins og áður eru karlmenn í miklum meirihluta þeirra sem létust, alls 13, konur voru tvær og börn yngri en 14 ára sem létust á árinu voru fjögur.

Fækkun banaslysa ber að fagna en sem áður er kröftugt forvarnarstarf mikilvægur hlekkur í því að fækka þeim. Slysavarnafélagið Landsbjörg ásamt fleirum hefur unnið ötullega að því starfi í gegn um árin með fræðslu og markaðsstarfi sem meðal annars er sinnt af slysavarnadeildum um allt land. Félagið vottar þeim sem sárt eiga að binda vegna andláts ástvina sinna samúð sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×