Skoðun

Lán - og ólán

Sighvatur Björgvinsson skrifar
Mikið er nú talað um nauðsyn þess að samfélagið leysi vandamál þeirra skuldara, sem þegið hafa lánsveð af skyldmennum en ekki getað borgað. Hvað er lánsveð? Það er þegar Jón og Gunna taka ákvörðun um að lána skyldmenni veð í fasteign sinni svo skyldmennið geti tekið meiri lán en veðhæfni eigna skyldmennisins dugar fyrir. Þetta er nákvæmlega sams konar gerningur og ef Jón og Gunna skrifa sem ábyrgðarmenn upp á lán handa skyldmenninu vegna þess að lánveitandinn – bankinn – telur ekki víst að skyldmennið geti eitt staðið undir lánunum. Því þurfi ábyrgð annarra að koma til.

Það er í báðum tilvikum algerlega frjáls ákvörðun þeirra Jóns og Gunnu hvað þau gera. Geti skyldmennið svo þegar til kemur ekki staðið undir láninu þá get ég ómögulega skilið að samfélagið eigi að leysa þau Jón og Gunnu undan ábyrgðinni nema málin standi svo að þau séu ekki borgunarmenn fyrir þeim ábyrgðum – nú eða lánsveðum – sem þau hafa veitt skyldmenninu.

Er sanngjarnt og réttlátt að ef ég lána ættingja mínum veð eða peninga og ættinginn getur ekki staðið í skilum þá eigi nágrannarnir að borga og gera mig skaðlausan? Yrði slíkt til þess að auka ábyrgðarkenndina í íslensku samfélagi?

Fram hefur nú komið, að drýgstur hluti þeirra miklu fjármuna, sem samfélagið hefur lagt fram til þess að aðstoða þá, sem höllustum fæti standa, hefur lent hjá þeim, sem höfðu háar tekjur, höfðu greiðslugetu til þess sjálfir að standa undir lánunum en skulduðu mikið vegna mikillar ofkeyrslu og skuldasöfnunar í neyslulánum, bílakaupum og yfirdrætti.

Þeir, sem raunverulega áttu í greiðsluerfiðleikum fengu minnstan hluta aðstoðarinnar. Þar að auki fengu þeir drjúgan hluta vaxtabótanna sem höfðu vanrækt að greiða vaxtagjöldin sín – hirtu vaxtabæturnar en greiddu aldrei vextina.

Þetta var nú aldrei ætlunin – hvað sem hver nú segir. En geta menn þá ekkert lært af reynslunni?




Skoðun

Sjá meira


×