Handbolti

Vonandi kem ég fólki á óvart

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ásgeir Örn.
Ásgeir Örn. Mynd/Stefán
Mikil ábyrgð mun hvíla á herðum Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar á HM á Spáni í fjarveru Alexanders Peterssonar. Þrátt fyrir mikla reynslu með landsliðinu hefur Ásgeir Örn sjaldan verið í aðalhlutverki en nú er tíminn kominn.

„Ég er ánægður með að fá að spila og fá meira hlutverk. Það er mjög leiðinlegt að Alex er meiddur og getur ekki verið með. Þannig er bara boltinn og skiljanlegt á ári sem þessu þegar það eru þrjú stórmót á þrettán mánuðum að einhver detti út. Þá þurfa aðrir að stíga upp og skila sínum hlutverkum," segir Ásgeir Örn, sem er á leið á sitt tíunda stórmót með landsliðinu. Mikil umræða hefur verið um stöðu hægri skyttu í ljósi meiðsla Alexanders og óvissunnar í kringum Ólaf Stefánsson. Ásgeir Örn hefur töluvert gleymst í umræðunni.

„Já, hugsanlega. Ég skil samt að fólk hugsi virkilega um það þegar leikmaður af þessari stærð eins og Lexi er, sem hefur verið einn besti leikmaðurinn í þýsku deildinni í vetur bæði í vörn og sókn, dettur út. Það yrði áfall fyrir hvaða lið sem er. Ég skil viðbrögðin vel. Ég vona bara að ég nái að koma á óvart. Ef fólk veit ekki af því að ég geti eitthvað þá vona ég bara að ég komi á óvart," segir Hafnfirðingurinn á léttu nótunum.

Ásgeir er á sínu fyrsta leiktímabili með Paris Handball frá samnefndri borg í Frakklandi. Liðið hefur unnið alla leiki sína en hlutverk Ásgeir hefur verið minna en hjá hans síðasta liði, Hannover Burgdorf í Þýskalandi.

„Þetta hefur verið allt öðruvísi hlutverk. Í fyrra spilaði ég meira eða minna í sextíu mínútur. Nú er ég kominn í miklu sterkara lið, heimsklassa lið, sem ætlar sér virkilega stóra hluti og mikil samkeppni er um stöðurnar," segir Ásgeir, sem hefur verið annar kostur þjálfarans í skyttustöðunni hægra megin. Hann hefur þó komið við sögu í flestum leikjum Parísarliðsins ýmist í stöðu skyttu eða hornamanns.

„Maður er kannski í verra leikformi en aftur á móti ferskari og mótíveraðri en áður. Það vegur kannski hvort annað upp. Ég er samt í toppformi líkamlega," segir Ásgeir sem hefur fullkominn skilning á fjarveru Alexanders.

„Leikjaplanið í þessum handbolta er bara brandari. Það er rugl hvað það eru margir leikir. Þetta er þriðja stórmótið á þrettán mánuðum. Ef þú ert kannski eitthvað veikur í öxlinni fyrir, þá er þetta leiðin til að eyðileggja hana algjörlega. Ég skil hann mjög vel."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×