Viðskipti innlent

Sér ekkert óeðlilegt við kaupin

BBI skrifar
Þorgeir Baldursson, oft kenndur við Odda.
Þorgeir Baldursson, oft kenndur við Odda.
„Ég sé ekki alveg hvað er óeðlilegt við það," segir Þorgeir Baldursson, forstjóri Kvosar um kaup fyrirtækisins á Plastprenti, en Kvos hafði áður fengið milljarða afskriftir hjá Landsbankanum og Arion banka.

Kristþór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ísafoldarprentsmiðju, skrifaði grein í Fréttablaðið í gær þar sem hann gagnrýnir söluna. Hann bendir á að Kvos hafi þurft að sýna fram á 250 milljóna króna greiðslugetu til að skila tilboði í Plastprent og spyr hvaða þeir peningar hafi komið. „Voru þeir til? Hefði þá ekki verið rétt að afskrifa minna?"

Þorgeir bendir á að Kvos hafi heimild til að auka hlutafé sitt, rétt eins og aðrir. „En við getum bara aukið hlutafé ef við erum að byggja upp félagið að nýju. Það liggur í augum uppi," segir hann.

Aðspurður um hvort það sé sanngjarnt að Kvos fái að kaupa umrætt fyrirtæki svo stuttu eftir milljarða afskriftir segist Þorgeir ekki ætla að dæma um sanngirnina á bak við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. „Það sem við lentum í var að erlend starfsemi Kvosar fór illa," segir hann en starfsemin nefnist Infopress og er erlend prentsmiðja sem var í eigu Kvosar. „Landsbankinn átti veð í þeirri starfsemi en vildi ekki taka það yfir. Við það töpuðust töluverðir fjármunir," segir Þorgeir en samkvæmt honum er það gjörningurinn sem felur í sér stóran hlut af afskriftum Kvosar. Hann bendir á að félagið er í mjög góðum rekstri í dag og er milljarða virði

„Kvos var tekin til endurskipulagningar. Hún var unnin mjög faglega en að sjálfsögðu töpuðu hluthafar öllu sínu hlutafé og tóku á sig mikinn skell. Svo það er ekkert bara hægt að tala um einhverja ósanngirni í þessu," segir Þorgeir.

„Nú eru þessi kaup náttúrlega bara í meðhöndlun hjá Samkeppniseftirliti og bara í eðlilegum farvegi þar," segir Þorgeir og telur að í raun sé ekki meira um málið að segja.


Tengdar fréttir

Rifjar upp afskriftir aðalkeppinautanna

"Er þetta réttlæti?" spyr Kristþór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ísafoldarprentsmiðju ehf., í grein í Fréttablaðinu í dag þar sem hann fjallar um afskriftir skulda aðalkeppinauta prentsmiðjunnar.

Hvenær lýkur vitleysunni?

Ég ætlaði hreinlega ekki að trúa mínum eigin eyrum, þegar mér var sagt að Framtakssjóður Íslands hefði selt Plastprent ehf. til Kvosar hf., móðurfélags Prentsmiðjunnar Odda. Fyrir örfáum mánuðum afskrifuðu Landsbankinn og Arion banki 5 milljarða af Kvos. Fyrrum eigendur fengu að halda fyrirtækinu, með því að leggja fram 500 milljónir. Þ.e. fyrir hverja krónu sem eigendur lögðu fram voru 10 afskrifaðar.

Landsbankamenn ósáttir við að Kvos fékk að kaupa Plastprent

Landsbankinn er ósáttur við að fyrirtæki sem nýlega fékk milljarða afskriftir hjá bankanum hafi fengið að kaupa Plastprent af Framtakssjóði Íslands. Fulltrúi bankans í stjórn sjóðsins greiddi atkvæði gegn samkomulaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×