Boston hafði í kvöld betur gegn New York, 115-111, í framlengdum leik í NBA-deildinni í körfubolta.
Rajon Rondo var með þrefalda tvennu í annað skiptið í síðustu þremur leikjum sínum en hann var með átján stig, 20 stoðsendingar og sautján fráköst í leiknum.
Jeremy Lin er nýjasta stórstjarna NBA-deildarinnar og sneri aftur til Boston þar sem hann spilaði lengi með háskólaliði Harvard. Hann náði sér í tvær villur á fyrstu þremur mínútum leiksins og skoraði alls fjórtán stig á 32 mínútum. Hann nýtti aðeins sex af sextán skotum sínum úr opnu spili.
Paul Pierce skoraði 34 stig fyrir Boston, þar á meðal mikilvægan þrist skömmu fyrir lok venjulegs leiktíma sem tryggði Boston framleningu.
Ray Allen skoraði svo tvær mikilvægar körfur í framlengingunni, í bæði skiptin eftir stoðsendingu Rondo, og fór langt með að tryggja Boston sigurinn í leiknum.
