Innlent

Aukin útgjöld tryggja ekki endilega gæði

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra. Mynd/Stefán Karlsson
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, segir að Landspítalinn mælist með mjög góða mælingu á öllum þjónustuþáttum þrátt fyrir niðurskurð undanfarinna ára. Ráðherrann segir að öryggi og gæði þjónustu verði ekki endilega tryggð með auknum útgjöldum til spítalans.

Alls hefur Landspítalinn skorið samtals niður um 32 milljarða króna frá árinu 2007.

Í ályktun fundar Læknafélags Reykjavíkur og Félags almennra lækna er lýst áhyggjum af versnandi ástandi á spítalanum. Talað er um vaxandi álag, vanmat á störfum fagfólks og erfiðar vinnuaðstæður.

Ekki verður skorið niður í útgjöldum til Landspítalans í fjárlögum næsta árs, en þau verða ekki aukin heldur.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, var gestur í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

„Allur heimurinn er að glíma við hækkanir á þessum kostnaði. Hann hefur þrefaldast á fáum árum í allri Evrópu. Við fáum fréttir frá Noregi, það er alveg sama hvar þú kemur. Það er verið að glíma við lyfjakostnað, glíma við nýja tækni, hækkandi aldur, króníska sjúkdóma og svo framvegis. Það sem kemur fram í umfjöllun um Landspítalann er að hann er þrátt fyrir allt þetta að fá gríðarlega góðar mælingar á öllum þáttum. Við erum að keppa við þá bestu í heiminum í heilbrigðiskerfinu og við verðum auðvitað að halda því," sagði Guðbjartur.

„Þá kemur að því: Hvað er það sem er styrkleikinn? Það kom ágætlega fram í viðtölum í gær. Það er auðvitað fólkið, menntunin og kunnáttan. Það er aðstaðan og aðbúnaðurinn. Og auðvitað verðum við líka að horfa á mönnunina. En það er ekkert eitt af þessu. Það er ekki hægt að segja að með aukinni mönnun tryggirðu öryggi og gæði. Það er heldur ekki hægt að segja að með auknum kostnaði tryggirðu öryggi og gæði," sagði Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×