Handbolti

Sjóðheitir Danir í Þýskalandi

Arnar Björnsson skrifar
Hans Óttar Lindberg
Hans Óttar Lindberg Nordicphotos/Getty
Danskir handboltamenn hafa farið á kostum í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta það sem af er tímabili. Danir eiga þrjá markahæstu menn Bundesligunnar.

Hornamaðurinn Hans Lindberg hjá Hamborg, sem fæddist á Íslandi og á íslenska foreldra, er markahæstur með 135 mörk. Anders Eggert hjá Flensburg er annar með 121 mark og Morten Olsen hjá Hannover Burgdurf er í þriðja sæti með 113 mörk.

Þessir þrír eru þeir einu sem hafa skorað yfir 100 mörk í deildinni í vetur. Þeir Eggert og Lindberg hafa skorað grimmt af vítalínunni, Eggert 59 mörk og Lindberg 49 en þeir félagar eru efstir í þeirri tölfræði. Olsen hefur skorað 40 mörk af vítalínunni í vetur.

Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Dana, velur á morgun átján manna hóp fyrir HM á Spáni sem hefst 11. janúar. Enn er óljóst hvort stórskyttan Mikkel Hansen verði í hópnum. Hann er búinn að vera meiddur en skoraði 5 mörk í gær þegar Parísarliðið sigraði Tremblay 27-16 í efstu deild franska handboltans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×