Handbolti

Ólafur Stefánsson: Liðið er betur sett án mín

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Valli
Ólafur Stefánsson dró sig í gær úr íslenska landsliðshópnum í handknattleik. Reiknað hafði verið með því að Ólafur gæti spilað með liðinu á Spáni en nú er ljóst að ekkert verður af því.

„Það eru allskonar hlutir sem koma að þessari ákvörðun. Sú helsta er sú að ég er einfaldlega ekki í nógu góðu líkamlegu formi til að spila á eins sterku móti og HM," segir Ólafur í viðtali við Sport.is.

Ólafur heldur á nýju ári til Katar þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun hjá Lakhwiya Sports Club.

„Ég hefði getað gúffað í mig allskonar pillum til að spila og ég hefði gert það fyrir málstaðinn. Það eru samt fleiri þættir sem að lokum gera það að verkum að ég tek þessa ákvörðun. Þegar allar ástæður eru farnar í hina áttina en að vera með þá verður þetta niðurstaðan," segir Ólafur í viðtalinu við Sport.is.

Ljóst er að Alexander Petersson verður einnig fjarri góðu gamni vegna meiðsla. Alexander lýsti því yfir í viðtali við Fréttablaðið á dögunum að tími Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar væri kominn. Ólafur er sammála.

„Hingað til hefur Geiri verið backup fyrir mig og Alexander og hann hefur verið gríðarlega óeigingjarn á sína þátttöku á þessum stórmótum. Ég held að hann eigi eftir að koma allri þjóðinni og sjálfum sér á óvart á þessu móti. Það er oft þannig að maður spýtir í lófana þegar enginn er til að bakka mann upp og hann er einfaldlega það góður leikmaður að ég held að hann eigi eftir standa sig vel sem aðalmaður í þessari stöðu."

Ólafur telur íslenska liðið betur sett án hans eins og staðan sé í dag.

„Liðið er að mínu mati betur sett að hafa mig ekki eins og staðan er á mér núna og ég verð að vera heiðarlegur í því gagnvart mér og liðinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×