Handbolti

Dagný: Þurfum allar að eiga hundrað prósent leik

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Dagný Skúladóttir.
Dagný Skúladóttir. Mynd/Stefán
Dagný Skúladóttir og aðrir hornamenn íslenska kvennalandsliðsins í handbolta fá vonandi fleiri tækifæri á því að skora hraðaupphlaupsmörk á móti Rússum í kvöld en í fyrstu tveimur leikjum liðsins á EM í handbolta kvenna í Serbíu. Íslenska liðið þarf sigur til þess að komast upp úr riðlinum.

„Þetta er hreinn úrslitaleikur og það er bara gaman að því að fá úrslitaleik um að komast inn í milliriðil. Við erum bara spenntar," sagði Dagný Skúladóttir eftir æfingu í gær.

„Það var sárt að tapa leiknum við Rúmena því við áttum bullandi möguleika í honum en þrátt fyrir það var þetta flottur leikur af okkar hálfu. Við erum að mæta sterkum þjóðum og vitum að hver leikur er mjög erfiður. Það er allavega stígandi í þessu hjá okkur," sagði Dagný.

„Ef við ætlum að eiga möguleika í þessi lið þá verðum við að fá þessi ódýru mörk. Það er svo ótrúlega erfitt að stilla upp í sókn á móti þessum sterku vörnum. Við verðum því að skila þessum fimm til sex hraðaupphlaupsmörkum í leik ef við ætlum að eiga möguleika," sagði Dagný.

„Við þurfum að koma boltanum hraðar upp völlin, hvort sem það er í fyrsta tempó eða öðru tempói af hraðauuphlaupi. Við erum mikið búin að tala um þetta og stefnum á það að gera betur á morgun," sagði Dagný.

„Þær eru ekki eins hávaxnar og þær hafa verið undanfarin ár en á móti kemur að þær eru komnar með unga, ferska og fljóta leikmenn. Það þarf svo margt til þess að þetta smelli. Það þarf bara að berja á þeim í vörninni og fá þessi ódýru mörk," sagði Dagný.

„Við eigum allar svolítið inni og þurfum allar að eiga hundrað prósent leik á morgun (í dag) ef við ætlum að eiga möguleika á þessu. Við erum ennþá að bíða eftir fyrsta sigrinum á EM og það yrði glæsilegt að komast áfram," sagði Dagný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×