Innlent

Kristján Möller stefnir á fyrsta sætið í Norðausturkjördæmi

Kristján L. Möller hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sætið á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Þetta kemur fram á vefsíðu blaðsins Vikudagur á Akureyri.

„Já, ég hef ákveðið að gefa kost á mér til áframhaldandi þingstarfa næsta vor fyrir Norðausturkjördæmi, ég mun bjóða mig fram í fyrsta sæti á lista Samfylkingarinnar," segir Kristján L. Möller í samtali við Vikudag.

Hann fór síðast fyrir framboðslista Samfylkingarinnar í kjördæminu og fékk flokkurinn þá þrjá þingmenn. Aðalfundur kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi verður haldinn á Húsavík á laugardaginn.

Á fundinum verður væntanlega ákveðið hvernig staðið verður að uppstillingu á framboðslistann við komandi Alþingiskosningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×