Innlent

Fyrsti sjónvarpsfréttamaður Íslands kveður

Fyrsti sjónvarpsfréttamaðurinn sem birtist í íslensku sjónvarpi, Magnús Bjarnfreðsson, er látinn, 78 ára að aldri. Hann lést í gær 30. ágúst, á líknardeild Landsspítalans í Kópavogi, eftir langvarandi veikindi.

Magnús Bjarnfreðsson og Markús Örn Antonsson voru fyrstu fréttamennirnir sem ráðnir voru til Ríkisútvarpsins Sjónvarps og það var Magnús sem flutti fyrstu íslensku sjónvarpsfréttirnar að kvöldi þann 30. september árið 1966 og varð um leið einn af heimilisvinum landsmanna.

Röddin var þá þegar orðin þjóðþekkt en Magnús hafði áður starfað sem útvarpsþulur og hafði einnig mikla reynslu sem blaðamaður, á Fálkanum, Frjálsri þjóð og Tímanum. Magnús hætti í sjónvarpsfréttum þegar hann gerðist bæjarfulltrúi í Kópavogi árið 1974 og starfaði hin seinni ár að almannatengslum.

Magnús var fæddur 9. febrúar 1934 á Efri-Steinsmýri í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu. Hann var sonur hjónanna Bjarnfreðar Ingimundarsonar og Ingibjargar Sigurbergsdóttir en ólst upp hjá fósturforeldrum sínum, þeim Páli Pálssyni og Magneu Magnúsdóttur í Efri-Vík í Landbroti. Hann var einn af 21 systkini og var sá sextándi í röðinni. Meðal systkina hans var Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, verkalýðsforingi og alþingismaður.

Magnús lætur eftir sig eiginkonu, Guðrúnu Árnadóttur og fjögur börn; Guðjón fæddan 1960, Árna 1965, Pál 1971 og Ingibjörgu 1973.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.