Viðskipti innlent

Ríkisábyrgð á peningamarkaðssjóðum í samræmi við reglur EFTA

JHH skrifar
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun þáverandi stjórnar Landsbankans, Glitnis og Kaupþings um kaup á verðbréfum af peningamarkaðssjóðum hafi ekki farið í bága við EES samninginn. Í tilkynningu frá ESA kemur fram að stofnunin líti svo á að ráðstafanirnar hafi verið nauðsynlegar til að endurbyggja traust á fjármálageiranum. Úrræðin hafi verið nauðsynleg og í samræmi við meðalhóf að því marki að vernda fjárfesta fyrir enn stærra tapi á sparifé sínu.

Niðurstaða ESA nær til átta fjárfestingarsjóða sem reknir voru af dótturfélögum viðskiptabankanna þriggja. Alls keyptu bankarnir þrír eignir að fjárhæð 82,2 milljarða króna sem voru í vörslu 8 sjóða, þar af 75,4% hjá Nýja Landsbankanum, 15,4% hjá Nýja Glitni (nú Íslandsbanka)og 9,2% hjá Nýja Kaupþingi (nú Arion banka) samkvæmt tilkynningu frá ESA í september 2010.

Þegar fjármálakreppan skall á Íslandi í byrjun október 2008 frestuðu verðbréfasjóðir innlausn á hlutdeildarskírteinum til þess að tryggja jafnræði milli eigenda hlutdeildarskírteina. Verðbréfasjóðirnir voru í framhaldinu gerðir upp og eigendur hlutdeildarskírteina fengu greitt andvirði hlutdeildarskírteina sinna. Þetta gerðist að hluta til með því að bankarnir keyptu eignir (að mestu leyti innlendar eignir) í eigu sjóðanna á viðskiptalegum forsendum. Eignirnar sem voru keyptar voru metnar á faglegan hátt enda þótt það hafi verið gert á óvissutímum. Verðið sem greitt var fyrir eignirnar var ákveðið af stjórnum nýju bankanna á grundvelli verðmats utanaðkomandi ráðgjafa (endurskoðunarfyrirtækja).








Fleiri fréttir

Sjá meira


×