Sport

Mata: Gull á Ólympíuleikunum verður ekkert gefins

Stefán Árni Pálsson skrifar
Juan Mata og Fernando Torres þegar Spánverjar urðu Evrópumeistarar í júní.
Juan Mata og Fernando Torres þegar Spánverjar urðu Evrópumeistarar í júní. Mynd. / Getty Images
Spænski knattspyrnumaðurinn Juan Mata vonast til að fullkomna tímabilið með sigri á Ólympíuleiknum í London í ágúst, en Mata gerir sér fyllilega grein fyrir því að það verður erfitt.

Mata heldur á Ólympíuleikana með nokkra verðlaunagripi í farteskinu en leikmaðurinn hefur átt magnað tímabil.

Með félagsliði sínu Chelsea vann hann Meistaradeild Evrópu og ensku bikarkeppnina auk þess sem hann var í sigurliði Spánar á Evrópumótinu í Póllandi og Úkraínu.

Spánverjar unnu síðast til gullverðlauna á Ólympíuleiknum árið 1992 þegar þeir fóru fram í Barcelona. Það er skýrt markmið hjá liðinu að ná í gullið í London í ágúst.

Auk Mata eru nokkrir frábærir knattspyrnumenn í spænska liðinu eins og Jordi Alba, Javi Martinez, David De Gea og Iker Muniain.

„Það tala margir um að mótið verði einskonar formsatriði fyrir okkur en það er langt frá því að vera satt. Það eru margar frábærar þjóðir á leikunum og við verðum að halda vel á spöðunum til að standa okkur."

„Spánverjar hafa náð góðum árangri á stórmótum undanfarinn ár en á bakvið það er mikil vinna og leikmenn hafa fórnað miklu fyrir land og þjóð. Slíkt hugafar hefur skilað okkur alla leið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×