Viðskipti innlent

Þurfum að herða lög gegn innherjaviðskiptum og markaðsmisnotkun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nokkur markaðsmisnotkunarmál, tengd íslensku bönkunum, eru þegar til rannsóknar hjá íslenskum yfirvöldum.
Nokkur markaðsmisnotkunarmál, tengd íslensku bönkunum, eru þegar til rannsóknar hjá íslenskum yfirvöldum.
Ísland þarf að herða lög sem ætlað er að koma í veg fyrir innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun. Þetta kemur fram í rökstuddu áliti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem sent var til Íslands í dag.

Í frétt á vef ESA segir að markmið tilskipunar um markaðsmisnotkun sé að endureisa markaði sem fjárfestar og almenningur geti treyst. Reglur um innherjaviðskipti og upplýsingagjöf séu lykilatriði í tilskipuninni. Ísland hafi hins vegar ekki enn innleitt að fullu ákvæði hennar um skilvirka og fullnægjandi dreifingu innherjaupplýsinga til almennings.

„Með tilskipuninni er stigið stórt skref í þá átt að samþætta fjármálamarkaði á Evrópska efnhagssvæðinu (EES) sem fjárfestar og almenningur geta treyst. Aukin trú fjárfesta og almennings á þeim leikreglum sem gilda um fjármálamarkaðinn er forsenda hagvaxtar og verðmætasköpunar. Samræmdar reglur á þessu sviði hafa jafnframt í för með sér verulegan efnahagslegan ábata," segir í frétt á vef ESA.

Íslensk stjórnvöld hafa fallist á athugasemdir ESA og upplýst að viðeigandi lagabreytingar verði gerðar fyrir árslok 2012.

Rökstudda álitið telst lokaaðvörun í málinu. ESA getur ákveðið að leggja málið fyrir EFTA dómstólinn ef Ísland fer ekki að álitinu innan tveggja mánaða frá móttöku þess.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×