Sport

Bolt fær mikla keppni í London - Gatlin og Gay náðu góðum tímum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin Gatlin fagnaði með syni sínum.
Justin Gatlin fagnaði með syni sínum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Justin Gatlin og Tyson Gay tryggðu sér sæti í Ólympíuliði Bandaríkjamanna í 100 metra hlaupi á úrtökumótinu um helgina og náðu þeir báðir góðum tímum. Það stefnir því í rosalegt 100 metra hlaup á Ólympíuleikunum í London.

Justin Gatlin setti persónulegt met með því að hlaupa 100 metrana á 9,80 sekúndum en Tyson Gay varð annar á 9.86 sekúndum. Tími Gatlin var sá þriðji besti á árinu en Jamaíkamaðurinn Usain Bolt á tvo bestu tíma ársins; 9,76 sekúndur í Róm og 9,79 sekúndur á Bislett.

Ryan Bailey varð síðan þriðji Bandaríkjamaðurinn sem fær að keppa í 100 metra hlaupinu en menn þurfa að vera í heimsklassa til þess að komast í Ólympíulið Bandaríkjamanna.

Justin Gatlin vann gull á leikunum í AÞenu 2004 en féll síðan á lyfjaprófi og fékk ekki að taka þátt í leikunum í Peking fyrir fjórum árum. „Ég á meira inni en ég er ánægður með tímann. Ég kom ekki til baka í sportið til þess að sætta við mig annað eða þriðja sætið," sagði Justin Gatlin.

„Ég ætla bara að einbeita mér að halda skrokknum í lagi og mæta frískur til leiks. Það eru margir sem eru að hlaupa á góðum tímum. Þetta verður því erfitt en ég ætla að blanda mér í baráttuna," sagði Tyson Gay.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×