Viðskipti innlent

Kaupþingstoppar í tímabundnu viðskiptabanni í Bretlandi

Rannsókn breska fjármálaeftirlitsins á starfsemi Kaupþingi Singer & Friedlander, dótturfélagi Kaupþings, er nú lokið án þess að grunur sé um refsiverða háttsemi. Þrír af æðstu fyrrverandi stjórnendum Kaupþings mega hins vegar ekki sinna leyfisskyldri fjármálastarfsemi í Bretlandi fyrr en í fyrsta lagi haustið 2013 fyrir að hafa sagt eftirlitinu ósatt.

Fjármálaeftirltið breska, FSA, hóf rannsókn á starfsemi Kaupþings Singer & Friedlander í Lundúnum í aðdraganda hrunsins eftir að bankinn var settur í greiðslustöðvun. Þessari rannsókn er nú lokið og það er niðurstaðan að engin lögbrot hafi verið framin í rekstri Singer & Friedlander bankans.

Í tilkynningu frá breska fjármálaeftirlitinu segir að í rannsókn málsins hafi ekki komið fram nein brot á vegum fyrrverandi stjórnenda Kaupþings né hafi þeir sjálfir viðurkennt slík brot.

Hinsvegar hafi hrun Kaupþings Singer & Friedlander verið alvarlegur hlutur á sínum tíma og ef bankinn væri ekki þegar gjaldþrota hefði hann verið sektaður fyrir starfshætti sína fyrir hrunið. Þess vegna verði fyrrverandi stjórnendum bankans meinað að stunda leyfisskylda fjármálastarfsemi á Englandi fyrr en fimm ár eru liðin frá greiðslustöðvun bankans eða þangað til í október 2013.

Þeir sem hér um ræðir eru Sigurður Einarsson fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson fyrrum forstjóri bankans og Ármann Þorvaldsson fyrrum bankastjóri Singer & Friedlander.

Þetta þýðir að þessir einstaklingar geta ekki sinnt neinni umfangsmikilli fjármálastarfsemi í Lundúnum sem háð er samþykki breska fjármálaeftirlitsins fyrr en í október 2013 í fyrsta lagi, en frá málinu er greint á fréttaveitunni Bloomberg.

Fjármálaeftirlitið breska getur þess sérstaklega að Singer & Friedlander hafi gerst brotlegur við reglur eftirlitsins með því að halda því fram að bankinn hefði aðgang að lánalínu upp á einn milljarð punda, jafnvirði um 200 milljarða króna, frá móðurfélaginu með skömmum fyrirvara. Þessi fullyrðing hafi ekki átt við rök að styðjast.

Sjá má tilkynningu breska fjármálaeftirlitsins, vegna rannsóknarinnar á Kaupþing Singer & Friedlander, hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×