Handbolti

Einar Þorvarðarson: Höfum ekki sótt um að halda keppnina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd / Pjetur
Einar Þorvarðarson, framkvæmdarstjóri Handknattleikssambands Íslands, segir það túlkun Evrópska handknattleikssambandsins að HSÍ hafi sótt um að halda EM kvenna í desember. HSÍ hafi hins vegar aðeins sent tvær fyrirspurnir til EHF.

„Við sendum þeim tvær spurningar. Annars vegar hversu stórar hallir þarf fyrir svona mót og hins vegar hvaða gæði á hótelum þarf og slíkt. Við fengum tilbaka allar útlistingar á svona móti og umsóknareyðublað en málið er ekki komið lengra en það. Það hefur ekkert meira farið frá okkur," segir Einar.

EHF birti á vef sínum lista yfir þær þjóðir sem hefðu sýnt áhuga á að halda keppnina. Ellefu þjóðir hafa verið nefndar, þar á meðal Ísland en sem kunnugt er hættu Hollendingar við að halda keppnina fyrr í vikunni.

„Þetta er þeirra túlkun en það er engin spurning um að við spurðum spurninga. Ef þeir eru í vandamálum með þetta erum við til í að skoða þetta líkt og hinar þjóðirnar," segir Einar.

Í svari EHF til HSÍ kom fram að í riðlakeppninni þyrfti að spila leiki í þrjú þúsund manna höllum, milliriðlana í fimm þúsund og úrslitaleikina í tíu þúsund manna höllum. Einar segir HSÍ aðeins viljað kynna sér umhverfið varðandi svona keppni.

Mótanefnd EHF fundar um helgina og Einar segir lítið um málið að segja. Hann hafi þó heyrt einhverjar sögur.

„Við höfum heyrt að Danir og Svíar séu að tala saman og Norðmenn líka. En meira er ekki hægt að segja," segir Einar.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.