Viðskipti innlent

"Kómískt“ að sjá nefnd snillinga verðleggja fjármuni

Gunnlaugur Jónsson fjárfestir segir nýja nálgun að fjármálakerfum vera lífsnauðsynlega svo að markaðir geti orðið skilvirkir, og virkni þeirra eðlileg. Þar sé langsamlega mikilvægast að afnema með öllu ríkisábyrgð á fjármálastarfsemi, þar ekki síst hlutverk seðlabanka við lán til þrautavara. Um þetta ásamt fleiru fjallar Gunnlaugur í bók sinni sem kom út fyrr á árinu, Ábyrgðarkver.

Gunnlaugur, sem er gestur nýjasta þáttar Klinksins, sem aðgengilegt er á viðskiptavef Vísis, segir ríkisábyrgðina vera „falskt" skjól fyrir fjárfesta og banka, sem brengli verðmyndun eigna á markaði. Þá segir hann það vera „kómískt" að sjá „nefnd snillinga" koma saman og ákvarða verðlagningu fjár í hagkerfinu, en þar vísar Gunnlaugur til Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands og það hlutverk hennar að ákveða vexti.

Hann segist vel gera sér grein fyrir að miklar formbreytingar á fjármálakerfinu, í þá veru að afnema ríkisábyrð, verði ekki innleiddar nema á löngum tíma. Þróun mála á alþjóðavísu, þ.e. mikil skuldaaukning hins opinbera og efnahagsbólumyndun í hagkerfum, sé hins vegar mikið umhugsunarefni, og óhjákvæmilegt sé að kafa ofan í það hvort kerfislæg vandamál vegna ríkisábyrgðar séu fyrir hendi. Það sé hans skoðun að svo sé.

Í viðtalinu ræðir Gunnlaugur einnig um olíuleit í íslenskri lögsögu og tækifærin á þeim vettvangi, en Gunnlaugur er inn í tveimur hópum af þremur sem skiluðu inn umsókn um olíuleit á Drekasvæðinu.

Sjá má viðtalið við Gunnlaug í heild sinni hér.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×