Innlent

Lögreglumenn gripu hávær brúðhjón í bólinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það borgar sig að fara varlega þótt mikið liggi við.
Það borgar sig að fara varlega þótt mikið liggi við.

Íbúar kvörtuðu til lögreglu þegar þeir voru orðnir þreyttir á hávaða og látum sem bárust frá íbúð í húsi nokkru á höfuðborgarsvæðinu eina helgarnótt fyrir skömmu. Lögreglan hélt á staðinn og átti allt eins von á því að fjörugt og fjölmennt partí væri þar í gangi. Samkvæmt frásögn lögreglunnar reyndist það ekki alveg raunin því innandyra voru karl og kona. Um var að ræða brúðhjón en ekki var talið að hávaðann og lætin mætti rekja til ósættis þeirra enda hveitibrauðsdagarnir nýhafnir.

Nei, hljóðin í blokkinni reyndust stafa af öðrum athöfnum fólksins. Lögreglan gefur ekki út smáatriði málsins en segir þó að hvílubrögð brúðhjónanna hafi ekki verið refsiverð. Hávaðinn og lætin sem þeim fylgdu kunni þó að hafa verið brot á lögreglusamþykkt en engu að síður hafi verið ákveðið að aðhafast ekkert frekar í málinu. Engar frekari kvartanir bárust lögreglu eftir að hún yfirgaf vettvang en hætt er við að brúðhjónin gleymdi seint þessari heimsókn lögreglumannanna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.