Viðskipti innlent

Kvarta til Samkeppniseftirlitsins vegna einokunar á bjórmarkaði

Eigendur Bruggverksmiðjunnar sem framleiðir bjórinn Kalda sökuðu í gær Vífilfell og Egils um að einoka markaðinn fyrir kranabjór og í dag sendi eigandi Brugghússins Gæðingur Öl samkeppniseftirlitinu erindi þar sem hann tekur undir þau orð en hann hefur frá því um mitt síðasta sumar reynt með takmörkuðum árangri að komast inn á markaðinn.

„Það var einn maður til dæmis sem ég hafði munnlegt samkomulag um að hann keypti af mér dælubjór en svo þegar ég ætlaði að koma til að setja upp dælurnar þá sagði hann „Við skulum bíða með þetta. Ég er að endurnýja samning við Vífilfell og þeir eru erfiðir." Ég tel að það skipulag sem þeir tveir aðilar hafa komið á í viðskiptum sínum við bari og veitingahús geri nýjum aðilum ókleift að komast inn á þennan markað."

Hann segist vita til þess að aðilarnir tveir hafi gert samninga við nokkra staði um að selja eingöngu bjórtegundir frá þeim og að þeir séu að fjárfesta í innanstokksmunum staða á borð við dælur og kæla. „Mér finnst í raun og veru óeðlilegt að birgjarnir geti fjárfest svona mikið í börunum og gert eigendur háða sér, eða skuldbundna sér."

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir stærri fyrirtæki á mörkuðum þurfa að fara varlega í samningsgerð við endurseljendur. „Sem að hindra með einhverjum hætti nýrri aðila eða smærri aðila til þess að komast inn á markaðinn eða efla sig þar. Slíkir samningar geta verið brot á samkeppnislögum en það þarf að skoða þetta í hverju tilviki og nú munum við taka afstöðu til þess hvort að það þurfi að skoða þennan markað," segir Páll Gunnar Pálsson.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×