Körfubolti

Ingi Þór: Þetta var stór dómur sem fór með leikinn

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Við gerðum algjörlega í buxurnar síðustu fimm mínúturnar," sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, eftir tapið í kvöld.

Snæfell tapaði fyrir Þór frá Þorlákshöfn, 82-77, í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Iceland-Express deild karla í körfubolta.

„Við sýndum arfaslakan sóknar og varnarleik í loka fjórðungnum en það munaði samt ekki miklu hjá okkur, við verðum einfaldlega að vera miklu skynsamari."

„Við vorum oft á tíðum bara klaufar og erum að gera barnaleg mistök. Síðan er algjör lykilþáttur hvað við erum að hleypa aukaleikurunum þeirra mikið inn í leikinn."

Nokkuð umdeilt atvik átti sér stað undir blálokin þegar Þórsarar voru með boltann og Quincy Hankins-Cole, leikmaður Snæfells, braut heldur harkalega á leikmanni Þórs. Dómarar leiksins dæmdu óíþróttamannslega villu og því fengu heimamenn tvö vítaskot og boltann á ný. Þetta gerði í raun útum leikinn og leikmenn Snæfells langt frá því að vera sáttir.

„Þetta var rosalega stór dómur og alveg klárar þennan leik. Ég var ekki sammála honum en dómararnir töpuðu ekki þessum leik fyrir okkur í kvöld, það er á hreinu."

„Við komum hingað aftur og spilum fyrir framan þessa frábæru áhorfendur. Næsti leikur verður á okkar heimavelli þá verður allt vitlaust."

Atvikið umdeilda má sjá hér að ofan en Snæfellingar voru allt annað en sáttur við dóminn.

Viðtalið við Inga má sjá í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×