Viðskipti innlent

Heildarhagnaður Icelandic Group 10,3 milljarðar króna

Lárus Ásgeirsson, forstjóri Icelandic Group.
Lárus Ásgeirsson, forstjóri Icelandic Group.
Heildarhagnaður Icelandic Group á árinu 2011 nam rúmum 61,9 milljónum evra eða sem nemur um 10,3 milljörðum króna á núverandi gengi. Í tilkynningu frá félaginu segir að heildartekjur af áframhaldandi starfsemi hafi numið tæpum 525 milljónum evra eða 87,6 milljörðum króna. „Eigið fé félagsins var 178 milljónir evra, eða 29,7 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið um áramót var 48%. Sjóðsstaða félagsins er sterk en fyrirtækið á 109,3 milljónir evra í reiðufé og 38,5 milljónir evra á bundum innstæðum, alls 147,8 milljónir evra eða 24,7 milljarða króna. Heildarhagnaður félagsins skýrist fyrst og fremst af sölu eigna."

Þá segir að á árinu 2011 hafi verksmiðjur Icelandic Group í Frakklandi og Þýskalandi verið seldar auk verksmiðjustarfsemi félagsins í Bandaríkjunum og tengdrar framleiðslustarfsemi í Kína. „Eftir eignasölu rekur félagið viðamikla verksmiðjustarfsemi í Bretlandi sem að mestu framleiðir fyrir neytendamarkað, framleiðslu- og þjónustustarfsemi á Íslandi auk sölu- og markaðsskrifstofa í Bretlandi, Noregi, Spáni og Japan. EBITDA framlegðin var 2,2 milljarðar króna á árinu samanborið við 2,6 milljarða af sambærilegri starfsemi árið áður. Alls starfa um 1.600 starfsmenn hjá fyrirtækinu eftir breytingar. Icelandic Group er í eigu Framtakssjóðs Íslands."

Ársreikningur fyrir árið 2011 sýnir afkomu af áframhaldandi starfsemi félagsins auk afkomu af rekstri seldra eininga fram að söludegi.

Herdís Fjeldsted, stjórnarformaður Icelandic Group segir ljóst að staða fyrirtækisins hafi gjörbreyst á árinu. „Sala á hluta af starfsemi félagsins tókst mjög vel og fjárhagsstaða félagsins er nú afar sterk en félagið var mjögskuldsett fyrir þessar sölur. Einnig hefur mikil vinna verið lögð í að efla þann rekstur sem tilheyrir áframhaldandi starfsemi fyrirtækisins og auka rekstrarhagnað. Icelandic Group hefur sterka stöðu á mörkuðum, á þekkt og öflug vörumerki og mikil þekking er innan fyrirtækisins á allri virðiskeðju sjávarútvegs. Það eru því allar forsendur til að vera bjartsýn á framtíð félagsins."

Lárus Ásgeirsson, forstjóri Icelandic Group segir að eftir viðamiklar breytingar á seinasta ári sé fjárhagsstaða fyrirtækisins sterk. „Í stað þeirrar áherslu sem verið hefur á vöxt leggjum við nú áherslu á arðsemi í starfsemi félagsins. Verkefnið framundan er að auka framlegðina af rekstrinum enn frekar. Það eru spennandi en jafnframt krefjandi tímar í sjávarútvegi, við framleiðslu og markaðssetningu á sjávarafurðum. Icelandic Group gegnir þar mikilvægu hlutverki."

Á aðalfundi félagsins sem haldinn var mánudaginn 26. mars var kosin ný stjórn félagsins. Stjórnina skipa:

Herdís Dröfn Fjeldsted formaður

Árni Geir Pálsson

Ingunn B. Vilhjálmsdóttir

Jón Þorgeir Einarsson

Magnús Bjarnason

Til vara:

Egill Tryggvason






Fleiri fréttir

Sjá meira


×