Innlent

Sá stóri skal ekki sleppa – þróaði nýtt veiðihjól

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fluguveiðihjól fyrir laxveiðimenn, sem kosta yfir hundrað þúsund krónur stykkið, eru orðin útflutningsvara frá Vestfjörðum og skapa nú fjórum mönnum atvinnu á Ísafirði.

Steingrímur Einarsson rennismiður og fiskeldisfræðingur, sem ólst upp við Sogið í Grímsnesi, ákvað fyrir fimm árum að stofna fyrirtækið Fossadal, sem skapar nú fjórum mönnum atvinnu við að framleiða fluguveiðihjól.

Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 kveðst Steingrímur leggja mikið upp úr gæðum en hjólin eru smíðuð úr áli, ættuðu frá Íslandi. Hér er því dæmi um úrvinnsluiðnað, sem margir hafa kallað eftir, en álklumpar frá Alcoa eru sagaðir niður og mótaðir í vélum svo úr verður lúxusvara.

Steingrímur segist hafa haft veiðidellu frá unga aldrei og það var svekkelsi við að missa þann stóra sem varð til þess að hann vildi betri veiðihjól. Hann þróaði því hjól með nýjum bremsum og hefur hugmyndin vakið mikla athygli erlendis. Unnið er að því að afla einkaleyfis fyrir bremsurnar en hjól með slíkum búnaði eru dýr og kosta um 120 þúsund krónur stykkið.

Þeir framleiða einnig ódýrari hjól í ýmsum stærðum og litum, þó engin undir 60 þúsund krónum. 90 prósent hjólanna eru seld til útlanda og markmið þeirra er að selja þúsund stykki í ár. Heimsmarkaðurinn er gríðarstór en bara í Bandaríkjunum, segir Steingrímur, að seljist 600 þúsund hjól á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×