Viðskipti innlent

Efnishyggjan aukist eftir hrun

Hafsteinn Hauksson skrifar
Ragna Benedikta segir að efnishyggja sé að aukast á landinu eftir hrun.
Ragna Benedikta segir að efnishyggja sé að aukast á landinu eftir hrun. Úr Klinkinu
Rannsóknir lektors í sálfræði við Háskóla Íslands benda til þess að efnishyggja sé að aukst á Íslandi eftir hrun bankanna. Hún segir að efnishyggja fólks hafi ráðið meiru um skuldsetningu þess en bæði tekjur og fjármálalæsi.

Ragna Benedikta Garðarsdóttir er doktor í félagssálfræði og lektor við Háskóla Íslands, en hún hefur rannsakað sálfræðiþættina að baki hagrænni hegðun eins og skuldsetningu. Í nýjasta þætti Klinksins á Vísi segir hún að drífandi þáttur sé efnishyggja, en það er trú fólks á að velgengni sé fólgin í peningum og að eignir geti fært fólki hamingju.

Hún segir að í samfélagi þar sem menn bera kjör sín mikið saman myndist þörf fyrir að eiga það sama og aðrir, og það hafi Íslendingar gert með skuldsetningu, en efnishyggja hafi skýrt hluta ofskuldsetningar þjóðarinnar á árunum fyrir hrun.

Gögn sem Ragna safnaði á Íslandi á árunum 2006 og 2007 sýna að efnishyggja hafi haft meira forspárgildi um skuldasöfnun fólks fyrir hrun en bæði tekjur þess og fjármálakunnátta.

„Hvað segir það okkur?" spyr Ragna. „Að það sem þú trúir, þín viðhorf og gildi, segja meira til um það hvort þú ert tilbúinn til að taka lán, heldur en hvaða tekjur þú ert með. Var enginn að bakka upp þessi lán? Nei, það var hægt að taka lán fyrir hvaða upphæð sem er burtséð frá tekjum okkar. Það er alvarlegt mál."

Gögn sem Ragna hefur safnað eftir hrun benda svo til þess að efnishyggja sé að aukast eftir hrun fjármálakerfisins.

„Þegar það er fjárhagslegur ótti uppi í samfélaginu, þá er fólk líklegra til að leggja meiri áherslu á peninga og eignir en annars. Þetta segir sig kannski pínulítið sjálft.

Ragna er í ítarlegu viðtali um sálfræðina í hagkerfinu í nýjasta þætti Klinksins, sem sjá má hér.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×