Viðskipti innlent

Mynd Baltasars stærsta opnun í sögu Working Title kvikmyndaversins

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Frumsýning á Contraband, Hollywood-mynd Baltasars Kormáks, er stærsta opnun í sögu Working Title kvikmyndaversins en áætlað er að kvikmyndin hafi halað inn 28,5 milljónir dollara á sinni fyrstu sýningarhelgi, jafnvirði 3,5 milljarða króna. Tekjurnar fóru fram úr björtustu vonum, segir Baltasar Kormákur.

Contraband, sem er bandarísk staðfærsla á kvikmyndinni Reykjavík-Rotterdam, skartar Hollywood-stjörnunum Mark Wahlberg og Kate Beckinsale í aðahlutverkum. Baltasar Kormákur leikstýrir en óhætt er að fullyrða að þetta sé hans stærsta verkefni til þessa. Myndin var frumsýnd á föstudag og fór beint á topinn í bæði Bandaríkjunum og Kanada. Samkvæmt tölum frá Working Title er áætlað að sölutekjur myndarinnar yfir helgina nemi 28,5 milljónum dollara.

Eins og áður segir er þetta stærsta opnun í sögu Working Title kvikmyndaversins, sem er aðalframleiðandi myndarinnar, en fyrirtækið hefur framleitt á annað hundrað kvikmyndir. Þar má nefna myndir eins og Love Actually, State of Play og Green Zone, sem var með Matt Damon í aðalhlutverki svo eitthvað sé nefnt.

Dreymdi ekki um svona góðan árangur

„Þetta er algjörlega geðveikt, það er ekki hægt að segja neitt annað. Maður á sína drauma um að hlutirnir gangi vel, en mér hefði ekki dottið í hug að fyrsta myndin sem ég gerði fyrir Working Title yrði stærsta opnunin þeirra," segir Baltasar.

Upphaflegur framleiðslukostnaður var 25 milljónir dollara þannig að myndin er strax á fyrstu helgi búin að ná upp í kostnað og gott betur.

Mark Wahlberg tók á sig launalækkun, miðað við þá þóknun sem hann tekur venjulega, til að taka þátt í myndinni, en hann er einn af meðframleiðendum hennar.

Stærsta opnun Wahlberg þar sem hann er einn í forgrunni

Þetta er væntanlega nokkur vegsauki fyrir Wahlberg? „Já, hann hringdi í mig í gær og var alveg svakalega ánægður. Þetta er sennilega besta opnun hans þar sem hann er einn í fronti fyrir mynd. Það eykur „value" hans í þessum bransa og þess vegna var hann ákaflega þakklátur og vill endilega drífa sig í næsta verkefni með mér," segir Baltasar.

Það er þegar búið að ganga frá verkefninu sem Baltasar er að vísa í en hann mun leikstýra Wahlberg að nýju í kvikmyndinni Two Guns. „Það er annar stórleikari sem er að skoða það mál, en ég get ekki greint frá nafni hans núna, en það kemur í ljós fljótlega." Baltasar segir að Two Guns sé töluvert stærra verkefni en Contraband, en góð opnun þykir mikil traustsyfirlýsing fyrir leikstjóra.

„Því meiri tekjur sem þú aflar, því meiri peningum treystir fólk þér fyrir. En þetta er mjög afstætt allt saman, enda miklar fjárhæðir, maður reynir bara að hugsa um eitthvað annað," segir Baltasar.

Baltasar ákvað að vera í faðmi fjölskyldunnar á Hofi á Höfðaströnd þessa frumsýningarhelgi fremur en að vera vestanhafs. Síðdegis í dag bárust svo tíðindin frá kvikmyndaverinu um góða opnun myndarinnar.

„Þetta er nánast tvöfalt það sem menn höfðu væntingar um. Ég hafði aldrei heyrt þessar tölur nefndar, að þetta væri inni í myndinni. Myndin er núna að opna á öðrum svæðum og er að ganga vel þar líka. Þetta virðist því ætla að fara vel."

Vonar að góður árangur efli íslenska kvikmyndagerð

Baltasar er með mörg járn í eldinum, en í bígerð eru kvikmyndirnar Everest og Víking, sem hann skrifaði handrit að ásamt Ólafi Egilssyni, en Working Title er með bæði verkefnin. „Ég er að reyna að fá þá til að taka báðar myndirnar hérna heima," segir Baltasar en að auki er hann með eigin verkefni á Íslandi, og þar má nefna Grafarþögn og Djúpið, en hann stefnir á að ljúka framleiðslu á báðum innan skamms.

Þá er fyrirtæki Baltasars, Blue Eyes, að fara að framleiða nýjustu mynd Dags Kára og á dagskránni eru jafnframt nýir sjónvarpsþættir. „Það er í deiglunni að nýta þessa velgengni og þennan kraft til að gera eitthvað spennandi hér heima á Íslandi," segir Baltasar Kormákur. thorbjorn@stod2.is


Tengdar fréttir

Mynd Baltasars malar gull í Hollywood

Allt stefnir í að Hollywood kvikmynd Baltasars Kormáks, Contraband, verði tekjuhæsta myndin í Bandaríkjunum um helgina, samkvæmt mælingu vefsins boxoffice.com. Áætlar vefurinn að tekjur af myndinni muni nema 24 milljónum, jafnvirði um þriggja milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×