Handbolti

Lars nálgast 1500 marka múrinn en Ólafur hefur skorað meira

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Christiansen.
Lars Christiansen. Mynd/AFP
Lars Christiansen, danski hornamaðurinn, er enn í fullu fjöri með danska landsliðinu þrátt fyrir að vera orðinn 39 ára gamall en hann hefur spilað með KIF Kolding undanfarin ár. Lars verður í EM-hóp Dana í Serbíu.

Christiansen skoraði 12 mörk fyrir danska landsliðið í Totalkredit Cup um helgina þar á meðal skoraði hann 5 mörk á móti íslenska landsliðinu í úrslitaleiknum í gær.

Christiansen sem spilar í vinstra horninu, hefur nú skorað 1487 mörk fyrir danska landsliðið og nálgast því óðum 1500 marka múrinn. Hann spilaði sinn fyrsta landsleik árið 1992 og það eru því að verða liðin tuttugu ár síðan að hann klæddist landsliðstreyjunni í fyrsta sinn.

Ólafur Stefánsson á markamet íslenska landsliðsins en hann hefur skorað 1506 mörk í 315 leikjum eða 4,8 mörk að meðaltali í leik. Lars hefur skorað 1487 mörk í 329 leikjum sem gera 4,5 mörk í leik. Ólafur hefur enn 19 marka forskot á Lars en sá danski er líklegur til að jafna það á EM í Serbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×