Viðskipti innlent

10 þúsund leigusamningum þinglýst 2011 - slegist um lausar íbúðir

Hátt í 10 þúsund leigusamningum um íbúðarhúsnæði var þinglýst á landinu á síðasta ári og hefur markaðurinn tvöfaldast frá hruni. Lítið hefur dregið úr eftirspurn og dæmi um að slegist sé um lausar íbúðir.

Framboð á leiguíbúðum hefur verið takmarkað á undanförnum árum og hefur leiguverð því rokið upp. Í nýlegri skýrslu sem Capacent gerði fyrir Reykjavíkurborg kemur fram að fjölga þarf leiguíbúðum á höfuðborgarsvæðinu um 9þúsund á næstu þremur árum til að mæta eftirspurn.

Hildigunnar Hafsteinsdóttir, hjá Neytendasamtökunum, segir ójafnvægi einkenna leigumarkaðinn.

„Núna er gríðarleg umfram eftirspurn og þá er þetta þannig að leigusali auglýsir sína eign og pikkar út. Það sækja svo kannski hundrað til tvö hundruð manns um eignina," segir Hildigunnur.

Tölur sýna að markaðurinn hefur tvöfaldast frá hruni. Að meðaltali var um 5 þúsund samningum þinglýst árlega fyrir hrun en strax árið 2009 fór fjöldinn upp í 10 þúsund og á síðasta ári var búið að þinglýsa tæplega 9500 samningum í lok nóvembermánaðar.

Þessar tölur segja þó ekki alla sögunar þar sem mörgum samningum er ekki þinglýst.

„Í rauninni vitum við ekki hvað það eru margir á leigusamningi. Auðvitað gefur þessi aukning ákveðna vísbendingu að það sé aukning líka í þessum samningum sem eru undir borðinu, ef svo má segja. En við vitum ekki hvað það eru margir á leigumarkaði."

Hildigunnur segir leigjendur búi við mikið óöryggi og því sé þörf á nýjum valkostum.

„Helsti gallinn kannski við íslenskan leigumarkað er að þú getur gert samning til eins árs. Þá ertu aftur í sömu sporum, ert á götunni og þarft að finna þér nýtt húsnæði. Það er helst þetta sem að ég myndi sjá fyrir mér að myndi gera leigumarkaðin meira aðlaðandi eru fleiri langtímasamningar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×