Innlent

Tugir ættleiðinga í uppnámi

Um þrjátíu fjölskyldur bíða þess að komast á námskeið hjá Íslenskri ættleiðingu. Meðan engin námskeið eru haldin er ekki hægt að senda umsóknir fólks um ættleiðingar út. 
nordicphotos/afp
Um þrjátíu fjölskyldur bíða þess að komast á námskeið hjá Íslenskri ættleiðingu. Meðan engin námskeið eru haldin er ekki hægt að senda umsóknir fólks um ættleiðingar út. nordicphotos/afp
„Þetta eru um þrjátíu fjölskyldur núna sem eru stopp og vita ekki neitt,“ segir Hörður Svavarsson, formaður Íslenskrar ættleiðingar.

Félagið hætti að halda námskeið fyrir kjörforeldra í vor vegna fjárskorts, en seta á námskeiðinu er skilyrði fyrir því að hægt sé að gefa út forsamþykki fyrir ættleiðingu og senda umsóknir úr landi.

Hörður segir stöðuna bagalega, fólkið sé innlyksa með umsóknir sínar. „Þessu fólki líður auðvitað illa því eins og frægt er vinnur tíminn ekkert með fólki sem er í þessu ættleiðingarferli. Það fer oft seint af stað og er að eldast út úr ættleiðingarferlinu.“

Drög að þjónustusamningi milli innanríkisráðuneytisins og Íslenskrar ættleiðingar liggja fyrir og hafa verið til umfjöllunar í ráðuneytinu. Samkvæmt svari Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra við fyrirspurn Unnar Brár Konráðsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um málið þarf ráðuneytið að meta skyldur Íslenskrar ættleiðingar samkvæmt lögum og greina fjárveitingar með tilliti til þeirra áður en hægt er að ljúka gerð samnings.

Samningar hafa verið lausir frá árinu 2009. „Ráðuneytið óskaði eftir því við fjárveitingarvaldið að það fengist framlag í fjáraukalögum í haust og ætlaði einnig að óska eftir hækkun í fjárlagafrumvarpinu, hækkun sem okkur fannst ekki nógu mikil.“ Því sé nú beðið eftir því að fjárlagafrumvarpið verði lagt fram. „Það er ekki búið að leggja það fram og við vitum ekkert hvað kemur út úr því. Á meðan gerir ráðuneytið ekki nýjan þjónustusamning og allt er við það sama. Maður skilur auðvitað að það er ekki hægt að ráðstafa peningum nema að hafa til þess heimild.“

Félagið greindi frá því í vor að það þyrfti um 54 milljónir króna til að geta sinnt því hlutverki sem því er ætlað. Á fjárlögum ársins 2012 var upphæðin 9,2 milljónir.

Hörður segir félagið mæta mikilli velvild. „Það eru allir rosalega mikið af vilja gerðir, en hafa bara verið það í svo mörg ár. Þess vegna erum við aðeins að spyrna við núna, við höfum verið í viðræðum við ráðuneytið í þrjú ár en ekkert hefur komið út úr því.“ - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×