Handbolti

Kiel hefndi fyrir tapið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Evrópumeistarar Kiel unnu í kvöld góðan sigur á Celje Lasko frá Slóveníu í Meistaradeild Evrópu, 30-26, og hefndu þar með fyrir tap í leik þessara liða um helgina.

Kiel byrjaði af krafti í leiknum og komst í 6-2 forystu. Það dró saman með liðunum eftir þetta en staðan í hálfleik var 13-12, Þjóðverjunum í vil.

Gestirnir frá Slóveníu náðu svo forystu, 15-14, en þá komu þrjú þýsk mörk í röð og Kiel leit aldrei um öxl eftir það.

Aron Pálmarsson átti góðan leik og skoraði fimm mörk í sjö tilraunum. Guðjón Valur Sigurðsson er einnig á mála hjá Kiel.

Með sigrinum komst Kiel upp í átta stig en liðið er í öðru sæti B-riðils, tveimur stigum á eftir ungverska liðinu Veszprem sem á leik til góða.

Atletico Madrid, Celje Lasko og Sävehof eru öll með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×