Fótbolti

Spánverjar skoruðu í lokin og slógu út Króata

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Varamaðurinn Jesús Navas skoraði sigurmark Heims- og Evrópumeistara Spánverja á móti Króatíu í lokaleik liðanna í C-riðli Evrópumótsins í fótbolta. Jesús Navas kom inn á sem varamaður fyrir Fernando Torres eftir klukkutíma og skoraði eina mark leiksins tveimur mínútum fyrir leikslok.

Króatar fengu nokkur flott færi úr skyndisóknum í seinni hálfleik en með því hefðu þeir getað slegið út spænska liðið. Spánverjar gerðu hinsvegar nóg og náðu inn markinu mikilvæga undir lokin.

Króötum gekk vel að verjast á móti Spánverjum í fyrri hálfleiknum. Slaven Bilic fjölgaði um einn mann inn á miðjunni og það gekk lítið sem ekkert hjá spænsku leikmönnunum að finna leiðir í gegnum krótaísku vörnina.

Króatar vildu síðan fá víti á 28. mínútu og höfðu nokkuð til síns máls þegar Sergio Ramos tæklaði Mario Mandzukic glæfralega í teignum. Ramos komst aðeins í boltann en tók aðallega Mandzukic sem lá lengi á eftir.

Króatar fengu algjört dauðafæri á 59. mínútu þegar Iker Casillas varði frábærlega skutluskalla frá Ivan Rakitić eftir skyndisókn og undirbúning Luka Modric.

Króatar tóku meiri áhættu þegar leið á hálfleikinn og voru duglegri við að skapa sér færi eftir sókndjarfar skiptingar Slaven Bilic. Þeim vantaði bara eitt mark til að slá út Heims- og Evrópumeistarana en það voru hinsvegar Spánverjar sem skoruðu og tryggðu sér sigur í riðlinum.

Jesús Navas skoraði sigurmarkið á 88. mínútu eftir stoðsendingu Andrés Iniesta og frábæra sendingu Cesc Fabregas inn í teiginn. Spánverjar gátu bætt við eftir það en sigurinn og sætið í átta liða úrslitunum var í höfn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×