Viðskipti innlent

Segir Glitni hafa lagt áherslu á lán vegna sölutryggingar

Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason

Lektor í viðskiptafræði segir að Glitnir hafi lagt ofuráherslu að lána fyrir stofnfjáraukningu í Byr því bankinn hafi sölutryggt stofnfjáraukninguna en lán voru í mörgum tilvikum veitt til skuldara með lélegt lánstraust og þá var blekkingum beitt.

Á föstudaginn voru þrír einstaklingar sem tekið höfðu lán hjá Glitni banka til að fjármagna stofnfjáraukningu í Byr og Sparisjóði Norðlendinga, sem síðar sameinaðist Byr, sýknaðir af kröfum Íslandsbanka. Í dómunum kemur fram að Glitnir virðist hafa lánað til fólks án nokkurrar skoðunar. Hvort sem um var að ræða börn, eða háaldraða, ný einkahlutafélög án eigna eða fólk á vanskilaskrá. Því var jafnframt slegið föstu að í einhverjum tilvikum hafi blekkingum verið beitt svo fólk tæki lán til að kaupa bréfin.

Hagur Glitnis að lána

Vilhjálmur Bjarnason, lektor í viðskiptafræði við HÍ, segir að það hafi verið hagur Glitnis banka að lána fyrir stofnfjáraukningunni þar sem bankinn hafi sölutryggt hana.

„Það var gerður samningur um sölutryggingu og með því var bankinn kominn með þetta sem skuldbindingu hjá sér og því kom þetta til framdráttar á eigin fé bankans í útreikningum um styrkleika bankans. Þannig að þetta í raun rýrði starfsgetu bankans," segir Vilhjálmur. Hann segir að Glitnir hafi því þurft að koma þessu af sér og því hafi verið gott að hafa sem flesta kaupendur að stofnfjárbréfum. Síðar hafi verið leitt í ljós að einu tryggingarnar fyrir lánunum hafi verið stofnfjárbréfin sjálf.

„Þetta er í rauninni leikur í reikningshaldi. Þannig að geta þessara tveggja lánastofnanna til samans hún skánar ekkert." Vilhjálmur segir að síðar hafi komið í ljós að andvirði lánanna hafi aldrei farið út úr Glitni. Engar millifærslur hafi átt sér stað. „Skýringin á því er að þarna var verið að leika leik varðandi sameignarsjóð sparisjóðanna. Það átti að rýra hann og búa til einhvers konar samstæðu úr Glitni og Byr. Það lá alltaf fyrir að þetta var hluti af sameiningarferli," segir Vilhjálmur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×