Handbolti

Fer Þórir með Noreg í úrslit?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Norska liðið hefur spilað betur með hverjum leik á HM í Brasilíu.
Norska liðið hefur spilað betur með hverjum leik á HM í Brasilíu. Mynd/Pjetur
Þórir Hergeirsson á möguleika á því að koma norska kvennalandsliðinu í úrslitaleikinn á HM þegar Noregur mætir Spáni í undanúrslitum á HM kvenna í Brasilíu í kvöld.

Þetta er annað heimsmeistaramót norska liðsins undir stjórn Þóris en liðið tapaði í undanúrslitum fyrir verðandi heimsmeisturum Rússa á HM í Kína fyrir tveimur árum. Norska liðið hefur unnið til verðlauna á tveimur fyrstu stórmótunum undir stjórn Þóris, vann brons á HM 2009 og gull á EM í fyrra.

Norðmenn hafa verið í fremstu röð í kvennahandboltanum undanfarin ár og hafa unnið fjögur Evrópumót í röð en hafa ekki unnið HM í tólf ár eða síðan norska liðið vann á heimavelli undir stjórn Marit Breivik árið 1999.

Noregur tapaði fyrsta leiknum sínum á mótinu en hefur síðan unnið sex leiki í röð. Spænska liðið hefur unnið fimm leiki í röð, þar á meðal heimastúlkur í Brasilíu í átta liða úrslitum.

Í fyrri undanúrslitaleiknum mætast Danmörk og Frakkland en danska liðið hefur unnið alla sjö leiki sína á mótinu. Frakkar hafa aftur á móti slegið Svía og heimsmeistara Rússa út í síðustu leikjum sínum.

Báðir leikir verða sýndir beint á Stöð 2 Sport í kvöld, Danmörk-Frakkland klukkan 19.15 og Noregur-Spánn klukkan 22.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×