Handbolti

Rakel hefur verið að hjálpa til á öllum æfingum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir.
Rakel Dögg Bragadóttir. Mynd/Daníel
Íslenska kvennalandsliðið varð fyrir miklu áfalli á dögunum þegar landsliðsfyrirliðinn Rakel Dögg Bragadóttir sleit krossband aðeins nokkrum vikum fyrir HM í Brasilíu. Þetta var ekki síst áfall fyrir Rakel sjálfa en hún hefur engu að síður tekið þátt í undirbúningi liðsins fyrir HM og hefur mætt á allar æfingar.

Ágúst Þór Jóhannsson landsliðsþjálfari og Hrafnhildur Skúladóttir, sem tekur við fyrirliðabandinu af henni, töluðu bæði um framlag Rakelar á æfingum liðsins á blaðamannafundi liðsins í gær.

„Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um það hvort Rakel fari með til Brasilíu. Hún hefur verið með á öllum æfingunum að fylgjast með þessu hjá okkur. Hún hefur mikla reynslu og hefur fín áhrif á leikmenn. Rakel er mjög sterkur karakter og sterkur persónuleiki og það er kannski ástæðan fyrir því að hún hefur verið fyrirliði landsliðsins í þetta langan tíma þrátt fyrir ungan aldur," segir Ágúst.

Hrafnhildur er nú tekin við fyrirliðabandinu. „Þetta breytir ekki miklu fyrir mig. Ég var varafyrirliði með Rakel og var fyrirliði landsliðsins áður en ég átti yngri dóttur mína. Ég var því fyrirliði landsliðsins fyrir fjórum árum og þetta er ekki nýtt hlutverk fyrir mér. Ég er líka fyrirliði hjá Val og líður bara ágætlega í þessari stöðu. Ég hefði klárlega viljað frekar hafa Rakel með en að vera sjálf með bandið," segir Hrafnhildur en Hanna Guðrún Stefánsdóttir verður varafyrirliði.

„Það er búið að ganga rosalega vel á æfingunum. Rakel hefur hjálpað okkur og er að benda okkur á hluti. Hún er með rosalegt auga fyrir spili og er að vissu leyti aukaþjálfari. Ég veit ekki hvort hún getur farið með en hún er með á öllum æfingum núna og er að hjálpa til," segir Hrafnhildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×