Handbolti

Flughræðslan vó þungt í ákvörðun Sólveigar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sólveig Lára Kjærnested verður ekki með á fyrsta heimsmeistaramóti íslensks kvennalandsliðs en hún ákvað að draga sig út úr hópnum af persónulegum ástæðum.

Sólveig Lára útskýrði ákvörðun sína í viðtali við Hans Steinar Bjarnason í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Íslenska kvennalandsliðið heldur áfram að missa leikmenn úr hópnum skömmu fyrir HM í Brasilíu því fyrirliðinn Rakel Dögg Bragadóttir sleit krossband á dögunum og verður ekki með.

Sólveig Lára segir stóra ástæðu vera eins og hálfs árs dóttir hennar. „Mér fannst þetta of langur tími til að fara frá henni. Reynslan hefur sýnt mér að það hefur ekki mjög góð áhrif á hana," sagði Sólveig en meiri athygli vekur hin ástæðan.

„Annar stór þáttur er flughræðsla. Ellefu tíma flug frá London til Brasilíu hljómar ekki vel í mínum eyrum. Ég hef flogið með hjálp róandi lyfja í rauninni. Ég held að þetta hafi komið stelpunum í landsliðinu svolítið á óvart. Ég held að þetta sjáist ekkert rosalega mikið utan á mér því ég er ekki titrandi og skjálfandi í vélunum," sagði Sólveig Lára.

„Það var gríðarlega erfitt að taka þessa ákvörðun og ég burðaðist lengi með þetta í hausnum. Það var rosalega erfitt að taka skrefið og segja að ég ætlaði ekki að gefa kost á mér og er enn þá pínu erfitt. Maður verður bara að standa við þær ákvarðanir sem maður tekur og ég hlakka bara til að fylgjast með stelpunum," sagði Sólveig Lára en Hildur Þorgeirsdóttir kemur inn í landsliðið í staðinn fyrir hana.

Það eru tíu dagar í að HM í Brasilíu hefjist en Ágúst Þór Jóhannsson landsliðsþjálfari mun tilkynna sextán manna HM-hóp á blaðamannafundi í dag.

Íslenska liðið mætir síðan Tékkum í tveimur æfingaleikjum í Vodafone-höllinni um helgina og stelpurnar fljúga síðan út til Brasilíu á miðvikudaginn kemur.

Það má sjá allt viðtalið við Sólveigu með því að smella hér fyir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×