Skoðun

Ný stjórnskipan og hvað svo?

Auðun Daníelsson skrifar
Stjórnlagaráð sendi frá sér frumvarp til stjórnskipunarlaga nýverið og í kjölfarið hefur skapast umræða um breytingar á stöðu forseta lýðveldins, þá hvort að um valdameiri forseta sé að ræða eða ekki. Þetta er í raun spurning um túlkun en hver hefur vald til að túlka stjórnarskrána í reynd?

Handhafar ríkisvalds á hverjum tíma eru þeir sem hafa mótað túlkun á núverandi stjórnarskrá og framkvæmd hennar. Samkvæmt frumvarpi stjórnlagaráðs til stjórnskipunarlaga er þessu fyrirkomulagi ekki breytt. Vert er að velta því fyrir sér með nýrri stjórnskipan hvort valdhöfum eigi sjálfum að vera frjálst að túlka verksvið og mörk valds síns samkvæmt nýrri stjórnarskrá?

Franski stjórnspekingurinn Montesquieu taldi að valdhöfum hætti til að misnota vald sitt og að vald þeirra yrði ekki takmarkað nema með valdi. Kenning hans gekk út á þrískiptingu ríkisvaldsins, það er löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvald. Hver valdhafi ætti að tempra vald annars.

Þar af leiðandi er það hluti dómstóla í slíkri valdtemprun að hafa eftirlit með að löggjafar- og framkvæmdarvaldið fari í hvívetna eftir fyrirmælum stjórnarskrár. Gallinn er sá að dómstólum er ekki alltaf fært að sinna þessari eftirlitsskyldu sinni. Eðli málsins samkvæmt hafa dómstólar ekki heimild til að taka mál upp að eigin frumkvæði en ákvarðanir stjórnvalda eru stundum þess eðlis að enginn er þess bær að höfða dómsmál.

Að mínum dómi þyrfti að vera virkara eftirlit með nýrri stjórnarskrá og tryggja að rétt væri farið með hina nýju stjórnskipan. Slíkur eftirlitsaðili þyrfti því að hafa úrskurðarvald um hvort fyrirhuguð lagasetning væri samrýmanleg stjórnarskránni og hvort ákvarðanir handhafa framkvæmdarvaldsins væru í samræmi við stjórnarskrá. Eins þyrfti hann að geta verið ráðgefandi fyrir stjórnvöld, sem gætu óskað álits varðandi lögmæti tilvonandi athafna.

Hver gæti farið með þetta vald svo almenn sátt yrði? Ég tel að hugsanleg lausn á þessu væri að koma hér á millidómstigi, það er að hér á landi yrðu þrjú dómstig í stað tveggja. Með því myndi vinnuálag hjá Hæstarétti fara minnkandi og þá væri hægt í leiðinni að auka eftirlitshlutverk Hæstaréttar með stjórnarskránni. Hæstiréttur hefði þá heimild til að setja saman fjölskipaðan stjórnlaga- eða stjórnskipunardómstól sem færi með áðurnefnt eftirlitshlutverk. Málskotsréttur beint til dómstólsins lægi hjá löggjafar- og framkvæmdarvaldinu. Almenningur hefði síðan málskotsrétt til stjórnlaga- eða stjórnskipunardómstólsins í gegnum almenna dómstóla.

Hvort þetta dæmi hér að ofan sé hið rétta skal kyrrt liggja en engu að síður er þetta hugmynd sem opnar vonandi á frekari umræðu um hvort handhafar ríkisvaldsins skuli vera frjálsir til að túlka valdsvið sitt og hvort þörf sé á frekari valdtemprun. Að lokum er það mín skoðun að stjórnlaga- eða stjórnskipunardómstóll myndi vera til þess fallinn að auka traust almennings á stjórnvöldum og auka líkur á að almenn sátt gilti um framkvæmd á nýrri stjórnskipan.




Skoðun

Sjá meira


×