Innlent

Alþingismenn til svara á Bláu línunni

Kristján Þór Júlíusson vill styrkja virkt lýðræði í Sjálfstæðisflokknum. Fréttablaðið/stefán
Kristján Þór Júlíusson vill styrkja virkt lýðræði í Sjálfstæðisflokknum. Fréttablaðið/stefán
Framtíðarnefnd Sjálfstæðisflokksins leggur til að þingmenn flokksins sitji fyrir svörum minnst einu sinni í mánuði í auglýstum og skipulögðum símatímum sem kallist „Bláa línan“. Þá vill nefndin að flokkurinn komi sér upp vídeósímakerfi sem verði aðgengilegt á öllum skrifstofum hans.

Nefndin, undir forystu alþingismannsins Kristjáns Þórs Júlíussonar, skilaði af sér skýrslu í gær. Framtíðarnefndin var ein þriggja nefnda flokksins sem skipaðar voru í fyrravor til að bregðast við ábendingum og gagnrýni á starf stjórnmálaflokka í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Nefndin leggur meðal annars til að öllum flokksmönnum verði heimilt að sækja landsfund ef þeir skrá sig með mánaðarfyrirvara. Nú eru landsfundarfulltrúar valdir af aðildarfélögum. Þá verði miðstjórn skylt að láta fara fram atkvæðagreiðslu um tiltekið málefni ef ósk um það berst frá þúsund flokksmönnum.

Í inngangi Kristjáns Þórs segir að nú sé ögurstund í íslenskum stjórnmálum. Áhyggjuefni sé hversu lítils trausts stjórnmálaflokkar njóti og besta leiðin til að breyta því sé að auka þátttöku almennra flokksmanna og treysta virkt lýðræði í sessi. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×