Viðskipti innlent

Nauðungarsala á fimm jörðum Lífsvals

Bankinn er stærsti eigandi og stærsti lánardrottinn Lífsvals. Fréttablaðið/GVA
Bankinn er stærsti eigandi og stærsti lánardrottinn Lífsvals. Fréttablaðið/GVA
Landsbankinn hefur farið fram á að fimm jarðir í eigu Lífsvals ehf. verði settar á nauðungaruppboð. Þetta gerir bankinn vegna vanskila á skuld upp á rúmar 562 milljónir króna. Þetta kemur fram í Lögbirtingarblaðinu.

Jarðirnar sem um ræðir eru Flatey, jörð annars vegar og lóð hins vegar, Haukafell og Kyljuholt í sveitarfélaginu Hornafirði auk jarðarinnar Barkarstaða í Húnaþingi vestra.

Félagið Lífsval var stofnað árið 2002 og var stórtækt í jarðakaupum á árunum fyrir hrun. Er félagið eigandi að 45 jörðum víðs vegar um landið og á til að mynda um 1 prósent af mjólkurkvóta landsins. Á Flatey á Mýrum í A-Skaftafellssýslu hefur Lífsval rekið stórt kúabú og rekur auk þess tvö sauðfjárbú.

Sýslumaðurinn á Höfn tekur kröfu Landsbankans fyrir í nóvember en Lífsval hefur möguleika á að fá beiðnina afturkallaða. Lífsval hefur ekki skilað ársreikningi frá árinu 2009 en þá skuldaði fyrirtækið 3,26 milljarða króna, þar af 2,4 milljarða til Landsbankans.

Landsbankinn er raunar sjálfur stærsti eigandi Lífsvals með 36 prósenta eignarhlut sem dótturfélagið Hömlur fer með. Hefur eignarhlutinn vaxið úr 19 prósentum í lok árs 2008 þar sem bankinn hefur tekið yfir hlutafé félaga sem farið hafa í þrot.

Meðal annarra sem voru hluthafar í félaginu í lok árs 2008 voru Ingvar Jónadab Karlsson með 16,86 prósenta hlut, Ólafur Ívan Wernersson með 15,63 prósent og Guðmundur A. Birgisson, kenndur við Núp í Ölfusi, með 10,45 prósent. Guðmundur komst hjá gjaldþroti með samkomulagi við Landsbankann í upphafi árs.- mþl





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×