Innlent

Tonnum af lyfjum var fargað í fyrra

Apótek láta farga fyrndum lyfjum og lyfjum sem einstaklingar hafa skilað inn til þeirra. fréttablaðið/pjetur
Apótek láta farga fyrndum lyfjum og lyfjum sem einstaklingar hafa skilað inn til þeirra. fréttablaðið/pjetur
Efnamóttakan í Reykjavík tók á móti tæplega átta tonnum af lyfjum til förgunar í fyrra, þar af tæpum þremur tonnum frá apótekum, að því er Jón H. Steingrímsson framkvæmdastjóri greinir frá. Hann segir mismuninn, um fimm tonn, aðallega koma frá sjúkrahúsum og framleiðendum. Lyfin eru send áfram til eyðingar í Sorpeyðingarstöð Suðurnesja.

Hringrás tók við fimm tonnum af lyfjum og sprautunálum frá apótekum og tannlæknum í fyrra. „Ég gæti trúað að lyfin hafi verið um þrjú tonn en sprautunálarnar um tvö tonn. Það eru aðallega sykursýkissjúklingar sem skila sprautunálunum í apótekin,“ segir Jóhann Karl Sigurðsson, rekstrarstjóri hjá Hringrás. „Sumu af þessu er brennt og sumt er urðað,“ greinir hann frá.

Distica hf., sem sér um 70 prósent lyfjadreifingar á Íslandi, tekur við fyrndum lyfjum, sem apótekin ná ekki að selja, til eyðingar. „Ég giska á að nálægt eitt prósent af sölunni komi til baka,“ segir Sigurður Traustason, faglegur forstöðumaður fyrirtækisins.

Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja, vildi í samtali við Fréttablaðið ekki gefa upp hversu mörgum tonnum af lyfjum fyrirtækið tók við til förgunar í fyrra. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu árið 2008 tók það á móti 62 tonnum af lyfjum til eyðingar árið 2007. Mest kom frá lyfjaframleiðendum og lyfjadreifingarfyrirtækjum.

Ingunn Björnsdóttir lyfjafræðingur sem hefur eftirlit með lyfjaávísunum lækna hjá Landlæknisembættinu, segir að með breytingu á greiðsluþátttöku sjúklinga megi búast við að förgun lyfja minnki.

„Það er verið að ræða slíkar breytingar á þingi. Það kann að vera að læknar hætti að ávísa lyfjum til þriggja mánaða. Í núverandi kerfi er hagkvæmast fyrir sjúklingana að fá lyfjum ávísað til þriggja mánaða í einu en í kerfinu sem verið er að ræða þá breytast þær forsendur. Það mun hins vegar alltaf falla til eitthvað af lyfjum sem þarf að farga en þetta er spurning um að lágmarka magnið.“

ibs@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×