Viðskipti innlent

Hægt að losa gjaldeyrishöft á meiri hraða

Páll Harðarson
Páll Harðarson
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir niðurstöður fyrsta gjaldeyrisútboðs Seðlabankans fyrir eigendur aflandskróna jákvæðar. Þær bendi til að hægt sé að aflétta gjaldeyrishöftunum með meiri hraða en áætlun stjórnvalda geri ráð fyrir.

„Ég lít á þetta sem vissa traustsyfirlýsingu á Íslandi. Fjárfestar virðast ekki vera í neinum flýti að hlaupa burt. Þetta er því býsna jákvætt og ég held að stjórnvöld ættu í kjölfarið að breyta kúrsinum og endurskoða fyrirliggjandi áætlun,“ segir Páll og bætir við: „Seðlabankinn metur að það séu til staðar 465 milljarðar aflandskróna en það eru ekki nema 60 milljarðar rúmir sem taka þátt í útboðinu. Þannig að eigendur 87 prósenta aflandskróna sjá ekki ástæðu til að vera með og liggur þar með ekki meira á að losna en það. Þá eru einungis þrjú prósent tilbúin til að greiða hærra verð fyrir evruna en 215 krónur. Þrýstingurinn sem áætlun stjórnvalda gerir ráð fyrir og byggir á virðist því bara ekki vera fyrir hendi.“

Seðlabankinn hélt í fyrradag sitt fyrsta af væntanlega nokkrum gjaldeyrisútboðum fyrir eigendur aflandskróna en útboðin eru liður í áætluninni um afnám hafta. Páll mælir með því að Seðlabankinn drífi sig í að halda fleiri útboð og leggur einnig til að fallið verði frá ríkisstjórnarfrumvarpi um framlengingu haftanna sem liggur fyrir þinginu og búist er við að verði afgreitt á næstu dögum. Losun haftanna verði markvissari en nú sé gert ráð fyrir.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í samtali við Fréttablaðið í fyrradag að útboðið hefði heppnast ágætlega. Þá lagði hann áherslu á að áætlun stjórnvalda byggði á því að skilyrði væru uppfyllt en ekki á tíma. Auðvitað væri vilji til að losa höftin eins fljótt og hægt væri en þó ekki fyrr en það. Þá myndu næstu útboð gefa gleggri mynd af stöðunni.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×