Handbolti

Landsliðsþjálfarinn kitlar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur þykir einn færasti handknattleiksþjálfari heims þessa dagana eftir frábæran árangur hjá Füchse Berlin og landsliði Austurríkis.nordicphotos/bongarts
Dagur þykir einn færasti handknattleiksþjálfari heims þessa dagana eftir frábæran árangur hjá Füchse Berlin og landsliði Austurríkis.nordicphotos/bongarts
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin í þýsku úrvalsdeildinni, átti nýverið í viðræðum við þýska handknattleikssambandið um að taka við starfi landsliðsþjálfara þar í landi. Dagur segir í samtali við Fréttablaðið að hann hafi ekki heyrt meira af málinu síðan þá.

„Ég var einn af nokkrum sem komu til greina en annars er ekkert nýtt í stöðunni. Ég hef ekki fengið tilboð eða neitt slíkt,“ segir Dagur. „Þar að auki er þetta ekki í mínum höndum. Ég er með samniing við Füchse Berlin og félagið þyrfti að leggja blessun sína yfir þetta.“

Þýskir fjölmiðlar orðuðu Dag fyrst við þjálfarastarfið í síðasta mánuði en í fyrradag staðfesti Bob Hanning, framkvæmdastjóri Füchse Berlin, í þýskum fjölmiðlum að viðræðurnar hefðu átt sér stað.

Heiner Brand er núverandi landsliðsþjálfari og er með samning til 2013. Hann hefur verið landsliðsþjálfari síðan 1997 og gert Þjóðverja bæði að heims- og Evrópumeisturum.

Undanfarin ár hefur hins vegar hallað undan fæti og liðið lent í 10. og 11. sæti á síðustu tveimur stórmótum. Gagnrýnin á liðið hefur verið mikil í Þýskalandi og afar líklegt er að Brand muni stíga til hliðar eftir undankeppni EM 2012 sem lýkur í júní.

Dagur hefur náð frábærum árangri á sínum þjálfaraferli. Hann gerði A1 Bregenz að margföldum meisturum sem spilandi þjálfari í Austurríki. Hann tók svo við landsliði Austurríkis en undir hans stjórn náði liðið sínum langbesta árangri í áraraðir.

Hann hefur svo stýrt Füchse Berlin undanfarin tvö ár en liðið tryggði sér á dögunum sæti í Meistaradeild Evrópu fyrir næstu leiktíð. Á því áttu fáir von fyrir fram.

„Þetta kitlar, það er ekki spurning,“ segir Dagur um landsliðsþjálfarastarfið. Þýskaland er mesta handboltaþjóð heims og því er starfið eitt það allra stærsta sinnar tegundar í heimi.

„Þetta er vissulega stór staða en á móti kemur að árangurinn á síðustu stórmótum hefur aðeins dregið loftið úr þeim,“ segir Dagur. „Þeir eru búnir að missa sjálfstraustið og þetta myndi því snúast um nákvæmlega það sem ég hef verið að gera – að gera liðið örlítið sterkara og koma löppunum undir það.“

Hann vill þó ekki gera of mikið úr sínum árangri til þessa. „Ég vil ekki byggja neinar skýjaborgir. Þetta snýst um að finna þann þjálfara sem passar best við liðið sem hann tekur við.“

Árangurinn hjá Füchse Berlin talar þó sínu máli. „Við erum búnir að ná okkar markmiðum og hvað okkur varðar er tímabilið eiginlega búið. Við ætluðum að komast í Evrópukeppni og erum komnir í Meistaradeildina,“ segir Dagur, sem sendi liðið í frí til Mallorca en er sjálfur staddur á Íslandi.

Füchse Berlin er búið að tryggja sér fjórða sæti þýsku úrvalsdeildarinnar sem þarf til að tryggja sér Meistaradeildarsætið. Fram undan eru því spennandi tímar hjá félaginu og gæti reynst erfitt fyrir Dag að velja á milli ef kæmi til þess. Hann hefur þó ekki áhyggjur af því.

„Ég mun fyrst leyfa þeim aðstæðum að koma upp áður en ég velti því fyrir mér. Ég hef ekki fengið tilboð enn. Annaðhvort eru þeir að liggja undir feldi eða eru að semja við annan,“ segir Dagur.

„Það eina sem ég veit er að það voru nokkuð mörg ósvöruð símtöl í símanum mínum eftir yfirlýsingu Bobs í gær.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×