Handbolti

Aðalsteinn: Mikill sigur fyrir mig

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aðalsteini gengur vel að fóta sig í þjálfarabransanum í Þýskalandi.
Aðalsteini gengur vel að fóta sig í þjálfarabransanum í Þýskalandi.
Þjálfarinn Aðalsteinn Reynir Eyjólfsson er heldur betur að gera það gott með þýska B-deildarliðið Eisenach þessa dagana, en það hefur tryggt sér sæti í nýrri B-deild þýska boltans á næstu leiktíð.

„Það er búið að vera gríðarlega mikið undir í vetur og félög að berjast fyrir lífi sínu. Þetta hefur verið merkilegt ár,“ sagði Aðalsteinn, en hans lið er taplaust í tíu leikjum í röð. Þar af unnust níu leikjanna. B-deildin er tvískipt í ár en verður sameinuð í eina á næsta ári. Aðeins níu lið af átján í deild Eisenach fá sæti í nýrri sameiginlegri B-deild á næsta ári. Þeirra félaga sem falla bíður nýtt rekstrarumhverfi og jafnvel gjaldþrot.

„Það má segja að framtíð félaganna hafi verið undir á þessu tímabili,“ sagði Aðalsteinn, sem tók við liðinu í lok síðasta tímabils.

„Það er vel staðið að öllu hér. Vel stutt við liðið, fjórtán atvinnumenn í hópnum og ekki yfir neinu að kvarta. Þetta er það besta sem ég hef komist í á mínum ferli,“ sagði Aðalsteinn, sem verður áfram þjálfari þar sem liðið verður áfram í B-deild. Ef það hefði mistekist væri hann án samnings.

„Þetta var mitt fyrsta ár í þessari deild og ég varð því að sanna mig. Þetta er því mikill sigur fyrir mig persónulega. Ég líki þessu við að vinna titil. Ég vissi ekki hvernig ég átti að vera eftir að áfanganum var náð. Svo var tómarúm daginn eftir en ég er að ná áttum,“ sagði Aðalsteinn léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×