Skoðun

Á að skapa fiskveiðiarð?

Helgi Áss Grétarsson skrifar
Um þorskveiðar á Íslandsmiðum á seinni helmingi níunda áratugar síðustu aldar hefur Hjálmar Vilhjálmsson, fiskifræðingur, m.a. sagt: „Slíkur var atgangurinn á miðunum að síðustu stóru [þorsk]árgangarnir (1983 og 1984) voru veiddir upp sem ungfiskur með þeim hætti að þeir skiluðu sér aldrei inn í hrygningarstofninn – hvað þá þeir árgangar sem á eftir komu" (Morgunblaðið, 19. nóvember 2007).

Árið 1990 veiddu um það bil tvöfalt fleiri íslensk fiskiskip nánast sama magn af þorski á Íslandsmiðum og gerðu árið 1977. Sú staðreynd að svo margir fengu aðgang að nýtingu þessarar auðlindar gerði að verkum að fyrir heildina var nýtingin óhagkvæm. Sjávarútvegurinn skuldaði háar fjárhæðir og lánveitendur atvinnugreinarinnar voru að verulegu leyti opinberir aðilar.

Hvernig átti að leysa úr þessari ósjálfbæru og óarðbæru stöðu til lengri tíma litið? Átti að halda áfram að veiða umfram ráðgjöf fiskifræðinga og hafa rúman aðgang að nýtingu auðlindarinnar?

Í stað þess að halda áfram á slíkri vegferð var í grundvallaratriðum ákveðið að taka upp kerfi einstaklingsbundinna og framseljanlegra aflaheimilda (kvóta). Það kerfi virðist um margt líklegt til að skapa þjóðhagslegan arð. Undirstaða þess er að það skapi efnahagslega hvata fyrir einstaka atvinnurekendur til að sinna rekstrinum af kostgæfni. Sé þessum hvötum breytt eða þeir afnumdir er líklegt að slíkt hafi áhrif. Meta þarf það og vega hvort arður af nýtingu auðlindarinnar verði þá til staðar.

Ég hef hlýtt tvívegis á Þórólf Matthíasson, hagfræðiprófessor, fjalla sérstaklega um íslenska aflamarkskerfið á opinberum fundum (í Vestmannaeyjum í júní 2009 og á Sauðárkróki í júní 2010). Hann lagði m.a. áherslu á að aflaheimildir væru „gjafakvóti" og byggðir landsins ættu undir högg að sækja vegna aflamarkskerfisins, m.a. vitnaði hann í bæði skiptin í umfjöllun Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu um málefni tiltekins útgerðarfyrirtækis á Grundarfirði.

Framsetning Þórólfs var með þeim hætti að sanngjarnt er að segja að hann hafi ekki talað hlýlega um íslenska aflamarkskerfið. Það sama skein í gegn þegar hann svaraði fyrirspurnum og ábendingum úr sal. Bæði fræðiskrif hans um efnið og almenn blaðaskrif gefa hið sama til kynna. Því var óvænt og ánægjulegt þegar hann sagði 15. febrúar sl. í blaðagrein í Fréttablaðinu: „…að fátt bendi til annars en að hreinn hagnaður veiða og vinnslu verði áfram mældur í milljarðatugum næsta áratuginn eða svo".

Í grein í Fréttablaðinu 23. febrúar sl. vísaði Þórólfur til tiltekinna krafna í akademískri umræðu. Af því tilefni vil ég benda á að sumir vilja samkenna hann við Samfylkinguna. Það myndi mér aldrei detta í hug að gera þar sem í akademískri umræðu eru það rökin sem máli skipta en hvorki slagorð né sleggjudómar.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×