Viðskipti innlent

Ekki hægt að flytja bílalánið nema með þriðjungshækkun á vöxtum

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Bílalánafyrirtækið Ergo neitar hjónum, sem vilja flytja bílalánið sitt yfir á nýrri bíl, um veðflutning nema nýr samningur verði gerður með rösklega þriðjungshækkun á vöxtum. Bankinn kveðst mæta fólki á miðri leið og veita afslátt frá markaðsvöxtum við veðflutning.

Hjónin eiga Land Cruiser jeppa árgerð 2004 með láni frá Ergo sem er innan Íslandsbanka. Eftir að gengislánin voru dæmd ólögmæt greiða þau nú 5,25% vexti af bílaláninu - óverðtryggða vexti Seðlabankans.

Þau vilja yngja upp, og kaupa Hondu Accord árgerð 2008, sem er að þeirra sögn minna keyrður en á sama listaverði og jeppinn. Samkvæmt því ætti nýrri bíllinn að vera jafngott eða betra veð fyrir bankann.

Ergo segir nei - nema vextirnir verði hækkaðir í 7,2% - um rúman þriðjung.

Eða eins og fram kemur í tölvupósti frá fyrirtækinu að ekki sé heimilt að flytja endurreiknaða bílasamninga á milli bíla. Aðeins sé í boði nýr samningur með hærri vöxtum.

Bíleigandinn kvaðst í samtali við fréttastofu ekki hafa fengið haldbæra skýringu á því hvers vegna Ergo hjá Íslandsbanka hafnar því að flytja veðið og er afar ósáttur.

Fréttastofa hafði samband við framkvæmdastjóra Ergo sem var ekki reiðubúinn að tjá sig, en að sögn upplýsingafulltrúa Íslandsbanka var ákveðið að mæta fólki, sem vildi skipta um bíla, á miðri leið og veita 1,75 prósentustiga vaxtaafslátt af markaðsvöxtum sem eru tæp 9 prósent.

Bankinn vildi hins vegar ekki útskýra hvers vegna Ergo hafnar því að flytja veðið yfir á yngri bíl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×