Handbolti

Dagur hefur enn ekkert heyrt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. Nordic Photos / Bongarts
Dagur Sigurðsson hefur ekkert meira heyrt í forráðamönnum þýska handknattleikssambandsins vegna landsliðsþjálfarastöðunnar sem nú er laus í Þýskalandi.

Heiner Brand, núverandi landsliðsþjálfari, tilkynnti í gær að hann muni stíga til hliðar í sumar eftir fjórtán ár í starfi. Hann mun stýra liðinu í síðustu tveimur leikjunum í undankeppni EM 2012 sem fara fram nú í júní.

Dagur er í þýskum fjölmiðlum annar tveggja sem koma hvað helst til greina í starfið. Hinn er Martin Heuberger, núverandi aðstoðarmaður Brand.

„Ég hef ekkert meira heyrt í þeim. Ég geri því ráð fyrir því að þeir séu að semja við einhvern annan,“ sagði Dagur í samtali við Vísi í dag. Hann var einn fjögurra sem þýska sambandið ræddi við í apríl um mögulega ráðningu.

„Ég er annars ekkert mikið að velta þessu fyrir mér. Ég er í flottu starfi eins og er,“ sagði Dagur en hann er nú þjálfari þýska úrvalsdeildarfélagsins Füchse Berlin.

Berlínarliðið keppir á næsta ári í Meistaradeild Evrópu og því spennandi tímar fram undan þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×