Sport

ÍR-ingar báru sigur úr býtum

Kristinn Torfason, FH, stökk 7,77 m í langstökki karla um helgina og náði lágmarki fyrir EM í París.fréttablaðið/daníel
Kristinn Torfason, FH, stökk 7,77 m í langstökki karla um helgina og náði lágmarki fyrir EM í París.fréttablaðið/daníel
A-lið ÍR varð á laugardaginn bikarmeistari innanhúss en bikarmót FRÍ fór fram í Laugardalnum. ÍR-ingar hlutu samtals 133 stig og voru með talsverða forystu á næstu lið – Norðurland og HSK sem bæði hlutu 103,5 stig. Norðurland var með fleiri sigurvegara og fékk því silfurverðlaunin.

ÍR fékk 63 stig í karlakeppninni en FH kom næst með 56 stig og svo Norðurland með 54.

ÍR fékk einnig flest stig í kvennaflokki, alls 70, en HSK varð í öðru sæti með 57 stig og Norðurland í því þriðja með 49,5.

Kristinn Torfason, FH, stökk 7,77 metra í langstökki og var aðeins fimm sentimetra frá Íslandsmeti Jóns Arnars Magnússonar í greininni. Þar með náði hann lágmarkinu fyrir Evrópumeistaramótið innanhúss sem fer fram í París fyrstu helgina í mars.

Þingeyingurinn Þorsteinn Ingvarsson stökk lengst 7,51 m en lágmarkið er 7,75 m. Þorsteinn varð reyndar fyrir því óláni að meiðast í keppninni.

Kúluvarparinn Óðinn Björn Þorsteinsson var einnig búinn að tryggja sér þátttökurétt á EM en svo gæti farið að ÍR-ingurinn Kristín Birna Ólafsdóttir bættist í þann hóp.

Kristín Birna var ekki langt frá því að ná lágmarkinu í 60 m grindahlaupi en þar sem hún þjófstartaði var hún dæmd úr leik. Hún fær þó annað tækifæri í vikunni til að ná lágmarkinu fyrir mótið í París.- esá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×