Innlent

Skrifaði upp á 214 þúsund dagskammta

Sá læknir sem ávísaði mestu af lyfjum sem innihalda metýlfenídat árið 2009 skrifaði samtals upp á 214 þúsund skilgreinda dagskammta til 372 einstaklinga. Læknafélag Íslands ítrekar áskorun sína til heilbrigðisyfirvalda um að koma á samtengdri sjúkraská á landsvísu.

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um eftirlit með lyfseðlaútgáfu lækna og flæði læknadóps á götunni. Læknafélagið sendi frá sér ályktun í kvöld vegna þessa þar sem fram kemur að félagið vill að allra leiða verði leitað til að koma í veg fyrir óeðlilegar lyfjaávísanir og vonar að yfirstandandi umræða verði hvatning til þess.

Í Kastljósi fyrr í kvöld var fjallað um samantekt sem þáverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir, óskaði eftir varðandi notkun á lyfjum sem innihalda metýlfenídat en í þeim flokki eru m.a. Ritalin, Ritalin Uno og Concerta sem eru meðal þeirra lyfja sem ganga kaupum og sölu á götunni. Lyf sem innihalda metýlfenídat voru kostnaðarsömustu einstöku lyfin hjá Sjúkratryggingum árið 2009 en það ár nam kostnaðurinn 464 milljónum. 24 læknar ávísuðu mest af þessum lyfjum.

Fimm læknar og tæp hálf milljón dagskammta

Sá sem ávísaði mestu er Grétar Sigurbergsson, geðlæknir, með rúmlega 214 þúsund skilgreinda dagskammta af umræddum lyfjum. Þessu magni ávísaði Grétar til 372 einstaklinga með 511 lyfseðlum, en samanlegt verð lyfjanna úr apóteki er um 72 milljónir króna. Næstur honum er barnalæknirinn Stefán J. Hreiðarson sem ávísaði metýlfenídat-lyfjum til 246 einstaklinga með 825 lyfseðlum. Um var að ræða um 80 þúsund skilgreinda dagskammta og virði þeirra er 29 miljónir.

Því næst kemur Garðar Sigursteinsson, geðlæknir, sem skrifaði upp á umrædd lyf til 124 einstaklinga með 465 lyfseðla og 70 þúsund dagskammta að andvirði um 25 milljóna. Þá kemur Ómar Ívarsson, geðlæknir, með 680 lyfjaávísanir til 107 einstaklinga. Skilgreindir dagskammtar eru rúmlega 52 þúsund og verðmæti lyfjanna úr apóteki er rúmlega 17 milljónir. Fimmti í röðinni er Gísli Baldursson, barna- og unglingageðlæknir, sem ávísaði árið 2009 metýlfenídat-lyfjum til 257 einstaklinga og notaði til þess 691 lyfseðlil. Skilgreindir dagskammtar voru um 50 þúsund og verðmæti lyfjanna er rúmlega 18 milljónir í apóteki.

Læknar kalla eftir breytingum

Læknafélag Íslands ítrekar áskorun sína til heilbrigðisyfirvalda um að koma á samtengdri sjúkraská á landsvísu. Þannig fái læknar heildaryfirsýn yfir meðferð sjúklinga og lyf sem ávísað sé til þeirra. Jafnframt skorar félagið á landlækni að sjá til þess að upplýsingar úr fyrirliggjandi lyfjagagnagrunni verði aðgengilegar öllum læknum. Þá lýsir félagið yfir vilja sínum til samstarfs við landlækni og aðra fagaðila til að koma á nauðsynlegum úrbótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×