Innlent

Borgin skýri hömlur á tjáningarfrelsi

Borgaryfirvöld þurfa að svara hver skipaði leikskólastjórum að svara ekki spurningum RÚV um laus leikskólapláss. Fréttablaðið/GVA
Borgaryfirvöld þurfa að svara hver skipaði leikskólastjórum að svara ekki spurningum RÚV um laus leikskólapláss. Fréttablaðið/GVA
Umboðsmaður Alþingis vill að Reykjavíkurborg svari því hvort leikskólastjórum hafi verið skipað að svara ekki spurningum Ríkisútvarpsins um laus pláss á leikskólum og hver hafi þá gefið þau fyrirmæli og á hvaða grundvelli.

„Eitt af því sem umboðsmaður Alþingis gætir að í eftirliti sínu með starfsemi stjórnvalda er hvort lagðar eru hömlur á tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna eða möguleika forstöðumanna á að veita þeim sem þess óska upplýsingar um starfsemi sína með tilheyrandi takmörkunum á möguleikum almennings til upplýstrar umræðu,“ segir í tilkynningu umboðsmanns.

„Óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um það á hvaða lagagrundvelli synjun Reykjavíkurborgar á beiðni fréttastofu Ríkisútvarpsins um upplýsingar um fjölda lausra plássa í leikskólum borgarinnar byggðist,“ segir umboðsmaður, sem vill afrit af samskiptum borgarinnar við leikskólastjóra vegna fyrirspurnar RÚV.

Í grein í Fréttablaðinu á laugardag sagði Jón Gnarr borgarstjóri engar hömlur hafa verið settar á tjáningarfrelsi leikskólastjóra. Þeir hefðu fengið „vinsamlega ábendingu“ frá fagstjóra skólasviðs um að beina fyrirspurnum til upplýsingadeildar til að „tryggja samræmd svör“.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×