Handbolti

Kiel bætti metið - 18 sigrar í fyrstu 18 leikjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í Kiel endurskrifuðu söguna í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld þegar Kiel varð fyrsta liðið til að vinna átján fyrstu deildarleiki sína á tímabili.

Kiel vann þá 28-25 útisigur á VfL Gummersbach í kvöld en sigurinn var reyndar langt frá því að vera eins sannfærandi og margir af hinum 17 sigrunum í vetur.

Aroni Pálmarssyni tókst ekki að skora í kvöld en hann klikkaði á öllum þremur skotum sínum í leiknum. Filip Jicha varð markahæstur hjá Kiel með 11 mörk og þeir Marcus Ahlm og Christian Zeitz skoruðu báðir 4 mörk.

THW Kiel er komið með sjö stiga forskot á Füchse Berlin sem mætir þessa stundina MT Melsungen í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en leikurinn hófst klukkan 19.15.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×