Erlent

Dýrkaði Michael Jordan og spilaði tölvuleiki

Kim Jong Un
Kim Jong Un mynd/AP
Nýskipaður leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong Un, var arfaslakur nemandi. Hann stundaði nám í Sviss en hætti án þess að taka eitt einasta próf. Hann eyddi tíma sínum í að horfa á körfubolta og spila tölvuleiki.

Jong Un var upphaflega nemandi við Alþjóðaskólann í Berne. Honum gekk afar illa í námi og var á endanum fluttur í Liebefeld-Steinholzi skólann í Bern. Hann var 15 ára gamall þegar hann var kynntur fyrir bekkjarfélögum sínum - klæddur Chicago Bulls peysu og Nike íþróttaskóm. Kennarinn kynnti hann sem Un Pak og að hann væri sonur diplómata frá Norður-Kóreu.

Jung Un kynntist hinum portúgalska Joao Micaelo í skólanum og urðu þeir góðir vinir. Joao segir að Jung Un hafi ekki verið sleipur í þýskunni og að hann hafi átt afar erfitt með að tjá sig. En hann var þó sæmilegur í ensku og stærðfræði samkvæmt Joao.

Joao segir að Jung Un hafi haft gríðarlegan áhuga á körfubolta og þá sérstaklega Michael Jordan. Hann hafi þó eytt öllum sínum stundum í að spila tölvuleiki.

Joao segir Jung Un hafi oft á tíðum þjáðst af skelfilegri heimþrá. Hann sótti aldrei partý sem samnemendur hans héldu reglulega og bragðaði aldrei áfengi. Joao segir að hann hafi oftast viljað vera einsamall. Hann segir að þjóðsöngur Norður-Kóreu hafi oftar en ekki hljómað úr herbergi Jung Un.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×