Viðskipti innlent

Efnahagsráðuneyti tekur upp tillögur Vickers fyrir Ísland

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Aldrei aftur verður tekin áhætta í bönkunum með sparifé almennings ef áform efnahags- og viðskiptaráðuneytisins ganga eftir. Í upphafi nýs árs verður kynnt áætlun um breytingar á fjármálafyrirtækjum en stefnt er því að smíða sérstakar girðingar utan um innlán til að tryggja hag sparifjáreigenda, að breskri fyrirmynd.

Margir hafa fært rök fyrir því að ríkisábyrgð á innistæðum gangi ekki til lengdar, enda þarf að svara spurningunni: Hvers vegna ætti ríkið að ábyrgjast innlán í öllum bönkum til lengri tíma? Er réttlætanlegt, að allir skattgreiðendur, líka þeir sem eiga ekki innlán í bönkum, en eiga t.d mikla fjármuni í skuldabréfum og hlutabréfum, beri ábyrgð á innistæðum allra? Stórt er spurt.

Yfirlýsing sem ríkisstjórn Geirs Haarde gaf út haustið 2008 um ábyrgð á innistæðum er enn í gildi og ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu hefur staðið við þetta loforð enda voru allar innistæður í bæði Byr og SpKef tryggðar á þeirra vakt, svo eitthvað sé nefnt.

Aðskilnaður viðskiptabanka- og fjárfestingarbanka

Ein af stórum áskorunum sem blasir við í bankakerfinu eftir hrun, er svarið þeirri spurningu hvort það eigi að aðskilja viðskiptabanka- og fjárfestingarbanka. Krafan er hávær, því menn segja, að venjulegt fólk eigi ekki að þurfa að búa við þá áhættu að bankastarfsmenn í eignastýringu eða fyrirtækjasviði t.d séu að taka áhættu í skjóli þeirra.

Ekki lagður til hreinn aðskilnaður

Fjármálakerfi Breta, rétt eins og okkar, lenti í kollsteypu haustið 2008 og tjón breska ríkisins vegna áhættusækni þarlendra banka er gríðarlegt. Í september skilaði sérstök nefnd breskra stjórnvalda undir forystu sir John Vickers skýrslu um bankakerfið. Þar er ekki beinlínis lagður til hreinn aðskilnaður viðskiptabanka- og fjárfestingarbanka, heldur er lagt til að smíðuð verði girðing, svokallað „ring-fence" utan um innistæður, þ.e sparifé venjulegs fólks.

Í einfölduðu máli má segja að með þessu verði komið í veg fyrir að sparifé verði nýtt í áhættusama fjármálastarfsemi.

Bresk stjórnvöld ætla að hrinda tillögum Vickers-nefndarinnar svokölluðu í framkvæmd og ætla að lögfesta aðskilnað á milli viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi fyrir árið 2015.

Í raun má segja að ákveðin girðing sé til staðar, því með setningu neyðarlaganna var öllum innlánum tryggður forgangur.

Í byrjun næsta árs verður lögð fram á Alþingi skýrsla efnahags- og viðskiptaráðuneytisins um starfsumhverfi fjármálamarkaðar á Íslandi. Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að í skýrslunni verði sérstakur kafli helgaður tillögum úr skýrslu Vickers og þær heimfærðar á íslenskan veruleika. Markmiðið er að tryggja að aldrei aftur verði sparifé almennings stefnt í voða líkt og gerðist í bankahruninu haustið 2008. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×